Jón Gunnarsson samgönguráðherra tilkynnti á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi í dag að vegur um Breiðdalsheiði verður framvegis ekki skilgreindur sem þjóðvegur 1. Hringvegurinn á Austurlandi mun þess í stað liggja um firðina.
Þetta kemur fram á vefsíðu samgönguráðuneytisins. Jón segir að með þessu sé farið að ráðum Vegagerðarinnar sem hafi metið þessa breytingu út frá ýmsum hliðum. Auk þess sagði hann að uppbyggingar heilsársvegar um Öxi væri að hans mati forgangsmál.
Ráðherra kynnti skipan starfshóps sem á að fara yfir möguleika á jarðgangagerð til að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar.
Yrði hópnum falið að meta möguleika á annars vegar jarðgöngum milli Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs eða hins vegar jarðgangatenginingu Seyðisfjarðar, Mjóafjarðar og Norðfjarðar með göngum milli Fagradals og Mjóafjarðar. Sagði ráðherra það skoðun sína að þessi framkvæmd væri næst í röðinni þegar Dýrafjarðargöngum lyki.