Fjölda atvinnuleyfa fyrir leigubíla á höfuðborgarsvæðinu hefur verið fjölgað um 20 með breytingu á reglugerð um leigubifreiðar sem tók gildi í gær. Eru leyfin nú orðin 580 samtals. Upphaflega var gert fyrir að fjölga leyfum um 90.
Endurskoðun á reglugerðinni hefur staðið yfir í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu varðandi fjölda atvinnuleyfa og hafa borist ábendingar bæði frá leigubifreiðastjórum og leigubifreiðastöðvum. Frá árinu 2002 hefur íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um liðlega 23% auk þess sem erlendum ferðamönnum hefur fjölgað á þessum tíma, segir í tilkynningu ráðuneytisins.
Drög að reglugerðinni voru kynnt í júlí og var þá gert ráð fyrir að fjölga leyfum um 100, þar af 90 á höfuðborgarsvæðinu.
Nokkrar umsagnir bárust bæði með og á móti svo mikilli fjölgun. Komu fram sjónarmið um að iðulega væri löng bið eftir þjónustu leigubifreiða á höfuðborgarsvæðinu og því væri brýnt að fjölga leyfum en aðrir töldu nægilega marga sinna leiguakstri og að fjölgun ferðamanna hefði ekki fært leigubifreiðastöðvum aukin verkefni svo nokkru næmi. Í kjölfar umsagna áttu sérfræðingar ráðuneytisins fundi með hagsmunaaðilum, m.a. fulltrúa Frama, og ráðherra hitti fulltrúa leigubifreiðarstjóra frá öllum stöðvum á höfuðborgarsvæðinu.
Niðurstaða ráðuneytisins varð sú að ekki væru forsendur til að fjölga atvinnuleyfum um 90 á einu bretti en ákveðið að fjölga leyfum um 20 á höfuðborgarsvæðinu og verða þau því alls 580.