Í gær var útibúi Kaupfélags Steingrímsfjarðar í Norðurfirði á Ströndum lokað. Því er engin matvöruverslun starfandi í Árneshreppi í dag, en Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti þessa fámennasta sveitarfélags landsins, á ekki von á því að sú staða vari lengi.
„Við erum að vona að það verði ekkert lokað í mjög marga daga. Það er verið að vinna í því að fá rekstraraðila og við erum á fullu í því. Þetta skýrist bara í næstu viku,“ segir Eva í samtali við mbl.is.
„Við eigum húsnæðið sem verslunin er í og svo eigum við líka íbúðina sem stendur til boða þeim sem rekur verslunina. Lagerinn tilheyrir KSH á Hólmavík og það þarf að komast að samningum þar á milli, til að þetta geti gengið upp allt saman.“
Eva segir Árnesinga sjálfa hafa átt Kaupfélagið áður fyrr, en við gjaldþrot þess árið 1992 hafi verið komið á sambandi við KSH á Hólmavík. Nú ljúki því sambandi þar sem KSH telji ekki lengur grundvöll fyrir rekstri verslunarinnar í Norðurfirði.
„Þetta var rekið sem útibú frá Hólmavík og jafnframt er það sama með útibúið sem er á Drangsnesi. Drangsnesingar eru fleiri en við og áttu betra með að snúa við sínum hallarekstri og þar af leiðandi hafa þeir sloppið fyrir horn ennþá,“ segir Eva.
„Við vorum bara sett út í kuldann, en allt í góðu sko. Við ætlum bara að redda þessum málum sjálf og vonandi fáum við einhvern góðan rekstraraðila.“
Á vefsíðu KSH kemur fram að Kaupfélaginu þyki dapurlegt að þurfa að tilkynna lokun verslunar í Norðurfirði og vonast er til þess að nýir rekstraraðilar taki við áður en langt um líður.
Eva segir að ekki gangi að hreppurinn verði án matvöruverslunar í langan tíma, enda eru um eitt hundrað kílómetrar í verslun á Hólmavík. Þangað geti fólk ekki sótt alla sína þjónustu.
„Nei, við gerum það ekki. Það gengur ekki upp. Það verður að hafa búð í sveitinni.“