Reikna með að opna við Hólmsá síðdegis

Rjúfa þurfti veginn við Hólmsá á þremur stöðum vegna vatnavaxtanna.
Rjúfa þurfti veginn við Hólmsá á þremur stöðum vegna vatnavaxtanna. Sigurður Bogi

Reiknað er með því að það náist að opna veginn við Hólmsá á Mýrum, vestan við Höfn í Hornafirði á milli klukkan 17 og 18 í dag. Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að vegagerðarmenn hafi unnið af krafti í allan dag við að opna veginn og rjúfa þannig einangrunina í sveitunum á milli Hólmsár og Steinavatna.

Síðdegis ætti því að verða akfært frá Höfn að Steinavötnum, en þar er hringvegurinn enn lokaður og verður það áfram næstu daga.

Ekki var hægt að meta ástand brúarinnar yfir Steinavötn í dag, vegna þess hve mikið vatn er í ánni í kjölfar mikilla rigninga í nótt. Vegagerðin segir í tilkynningu að reiknað sé með að ástandið verði metið á morgun og að því loknu er mögulegt að umferð gangandi fólks verði leyfð yfir brúna.

Bygging bráðabirgðabrúar í fullum gangi

Vinna við byggingu bráðabirgðabrúar yfir Steinavötn er komin af stað. Búið er að hanna brúna og koma fólki, vinnuvélum og vinnubúnaði á staðinn, að því er kemur fram í tilkynningu Vegagerðarinnar. 

Framkvæmdir eru í fullum gangi við bráðabirgðabrú yfir Steinavötn.
Framkvæmdir eru í fullum gangi við bráðabirgðabrú yfir Steinavötn. Hreggviður Símonarson/Landhelgisgæslan


Í dag var þegar búið að smíða tíu fleka í gólf brúarinnar en það er gert á Selfossi. Búið er að staðsetja stálbitana sem fara í brúna og hafist hefur verið handa við að flytja þá austur, flestir bitarnir eru á Selfossi, en einnig eru bitar í Kerlingardal sem munu fara í brúna. 

Niðurrekstrarhamarinn er kominn á staðinn og unnið er að uppsetningu hans. Allur búnaður brúarvinnuflokksins frá Hvammstanga er kominn austur. Unnið er að því að koma vinnusvæðinu í horf, setja stálskó á staurana sem verða reknir niður en Vegagerðin vonast til þess að sú vinna geti hafist á morgun.

Brúarvinnuflokkar Vegagerðarinnar í Vík og á Hvammstanga munu vinna verkið saman, ásamt fjölmörgu öðru starfsfólki Vegagerðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert