Héraðsdómarinn Símon Sigvaldason er ekki vanhæfur til að dæma að nýju í Stím-málinu svokallaða. Sakborningar í málinu höfðu krafist þess að hann myndi víkja sæti þar sem þeir töldu hann hafa látið hjá líða að vekja athygli á tengslum sem gæfu tilefni til að draga óhlutdrægni meðdómara málsins í efa þegar það var tekið fyrir í fyrra skipti fyrir héraðsdómi.
Hæstiréttur ógilti dóm héraðsdóms í málinu þegar í ljós kom að Sigríði Hjaltested hafi brostið hæfi til að dæma í málinu. Sigríður sagði sig frá öðru hrunmáli sem Hæstiréttur segir hliðstætt þessu máli. Það gerði hún vegna tengsla þess við fyrrverandi eiginmann sinn og barnsföður.
Í Stím-málinu voru þrír sakborningar dæmdir fangelsi í héraðsdómi í desember árið 2015, frá 18 mánuðum upp í 5 ár. Málið er eitt af hinum svokölluðu hrunmálum og tengist 20 milljarða króna láni bankans til félagsins Stím til kaupa hlutabréfa í Glitni og FL Group, en FL var á þessum tíma stærsti hluthafi Glitnis.
Í dómi Hæstaréttar kom fram að Sigríður hefði á þeim tíma sem hún dæmdi í Stím-málinu vitað um stöðu fyrrverandi eiginmanns síns. Stuttu áður en dómur féll í Stím-málinu var önnur ákæra gefin út gegn stjórnendum Glitnis í svokölluðu markaðsmisnotkunarmáli bankans. Sagði Sigríður sig frá því þar sem hana skorti hæfi til að dæma í málinu og vísaði hún til þess að eiginmaður sinn hefði verið starfsmaður bankans og með stöðu sakbornings í öðrum málum.
Símon var dómsformaður í fyrra málinu og var skipaður sem slíkur að nýju þegar málið var þingfest í annað skipti fyrr á þessu ári.
Verjendur í málinu hafa bent á að Símon hafi áður dæmt í þremur málum sem tengjast Lárusi Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, og í tvö skipti sem tengjast Jóhannesi Baldurssyni, fyrrverandi starfsmanni bankans, og í öll skipti hafi hann „staðið að áfellisdómi yfir ákærðu“, eins og nefnt er í kæru málsins til Hæstaréttar. Telja verjendur að erfitt sé að útiloka að þessi endurtekna aðkoma Símonar að málsóknum á hendur ákærðu torveldi honum að líta hlutlaust á málavexti.
Þá er bent á að Símon hafi sjálfur viðrað þá skoðun sína að annmarkar séu á fyrirkomulagi um að samkvæmt venju taki sömu dómarar aftur við máli sem hafi verið ómerkt í Hæstarétti. Telja verjendurnir einnig að í fyrri dómi sínum í héraði hafi ekki verið lagt mat á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Þannig hafi 49 vitni gefið skýrslu, en í forsendum dómsins hafi ekki einu orði verið vikið að því sem kom fram við munnlega sönnunarfærslu. „Sé það vísbending um að héraðsdómur hafi talið munnlega sönnunarfærslu þýðingarlausa með öllu við úrlausn málsins og henni því verið vikið til hliðar. Það mat fái ekki staðist. Sé enda ljóst að framburður margra vitna, sem og framburðir ákærðu, hafi lotið að atriðum sem máli hafi getað skipt um skýringu á þeirri háttsemi sem ákærðu hafi verið gefin að sök,“ segir í kærunni.
Í úrskurði sem Símon kvað upp um kæruna segir að ekki verði skorið úr um mögulegt rangt mat á munnlegum framburði fyrr en á æðra dómstigi. Engin önnur vörn ákærðu sem komi fram í kærunni geti leitt til að dómara sé skylt að víkja sæti og að hafa beri í huga að dómari geti ekki að eigin geðþótta vikið sér undan því að dæma mál sem honum hafi verið úthlutað.
Undir þetta tekur Hæstiréttur og segir að dómarar geti leyst efnislega úr máli, jafnvel þótt dómur hafi áður verið kveðinn upp og ómerktur af æðra dómstig, „enda er hann ekki bundinn af fyrri úrlausn sinni í málinu,“ segir í dómi Hæstaréttar. Þá er tekið fram að ekkert sé því til fyrirstöðu að dómari leggi dóm á mál að nýju nema að niðurstaða hans um sönnunargildi munnlegs framburðar hafi verið röng svo að einhverju skipti um úrslit máls. Svo sé ekki í þessu tilviki.