Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir atburði dagsins í Katalóníu valda sér áhyggjum og harmar ofbeldið. Hátt í 800 borgarar hafa leitað sér læknisaðstoðar eftir að spænsk yfirvöld reyndu að koma í veg fyrir kosningar um sjálfstæði Katalóníuhéraðs með lögregluaðgerðum við kjörstaði.
„Þessar myndir vekja óhug. Það er mikilvægt að þessu ofbeldi linni og að menn finni friðsamlegar leiðir til að leysa úr sínum deilumálum,“ segir Guðlaugur Þór í samtali við mbl.is.
Utanríkisráðherra leggur áherslu á að þarna sé um innanríkismál Spánverja að ræða og vildi aðspurður ekki fordæma aðgerðir spænskra yfirvalda sérstaklega.
„Þessi mál eru innanríkismál Spánar og við erum meðvituð um hvað er verið að takast á um, en það er mikilvægt að þessi deilumál og önnur sambærileg séu leyst með friðsamlegum hætti.“
„Við höfum haft mjög góð samskipti við Spánverja og Katalóna og Barselóna stendur okkur Íslendingum að vissu leyti mjög nálægt. Án þess að vilja blanda mér í innanríkismál, þá er ofbeldi aldrei lausnin og það lítur út fyrir, miðað við fréttir, að verið sé að beita ofbeldi og það er mjög alvarlegt mál,“ segir Guðlaugur Þór.