„Ég upplifi borgina eins og hún sé að vakna eftir erfitt fyllerí. Gerðist þetta í alvörunni?“ segir Óttar M. Norðfjörð rithöfundur, sem er búsettur í Barcelona.
Íbúar í sjálfstjórnarhéraðinu Katalóníu kusu um sjálfstæði frá Spáni í gær. 90% af þeim 2,26 milljónum Katalóna sem kusu um sjálfstæði sögðu já.
Óttar segir mikilvægt að varpa ljósi á allar hliðar kosninganna í Katalóníu. „Fína letrið er að kosningaþátttakan var 42 prósent, sem er hrikalega lélegt. Flestir sem ég þekki hérna úti sem eru mótfallnir sjálfstæði mættu ekki á kjörstað af alls konar ástæðum. Þeim fannst kosningin ólögleg og allt gert í flýti og fannst hún knúin fram en ekki lýðræðisleg. Kosningin sem slík er algjörlega ómarktæk og steikt og maður óttast að lýst verði yfir sjálfstæði í dag eða á morgun,“ segir Óttar í samtali við mbl.is.
Óttar hefur búið á Spáni í tíu ár og fylgst með þróun sjálfstæðisbaráttu Katalóna allan tímann. „Það má eiginlega segja að sjálfstæðisbaráttuþróunin sé um tíu ára gömul. Árið 2009 var stuðningur við sjálfstæði Katalóníu í kringum tíu til fimmtán prósent þannig hann hefur snaraukist á síðastliðnum sjö til átta árum.“
Íbúar í Katalóníu eru 7,5 milljón manns. Af þeim voru 5,3 voru á kjörskrá, en aðeins um 2 milljónir kusu með sjálfstæði í gær. Óttar vakti athygli á þessu í færslu á Facebook þar sem hann skrifar meðal annars: „Munum að það er „þögull meirihluti“ hér sem vill ekki sjálfstæði og margir þeirra álíta að um valdaránstilraun sé að ræða af hendi popúlista og þjóðernissinna.“
Umfang sjálfstæðisbaráttunnar hefur óneitanlega aukist, en skoðanakannanir hafa ávallt sýnt að mikill meirihluti Katalóna er mótfallinn því að héraðið lýsi yfir sjálfstæði. Að sögn Óttars má tengja aukið umfang sjálfstæðisbaráttu Katalóna við óánægju þeirra með Mariano Rajoyforsætisráðherra Spánar og slæmt efnahagsástand síðastliðinn áratug.
„Mariano Rajoy er einstaklega taktlaus maður sem kann ekki að díla við þessa héraðspólitík sem er á Spáni. Svo er það efnahagshrunið sem dundi yfir og Spánn er ennþá að komast út úr þeirri lægð. Úr þessum jarðvegi sprettur sjálfstæðishreyfing sem hefur verið dugleg að hvetja fólk til sjálfstæðis og sumum finnst jafnvel eins og þeir hafi beitt áróðri og lygum í að sannfæra Katalóna um að sjálfstæði sé betra en að tilheyra Spáni.“
Sjokkið meðal íbúa í Katalóníu er greinilegt að mati Óttars, en hann segir ómögulegt að segja til um hvað gerist næst. „Gærdagurinn getur verið toppurinn á ísjakanum. Ef sjálfstæðissinnar lýsa yfir sjálfstæði í dag eða á morgun, hver veit þá hvað gerist næst? Þetta er skrýtið óvissuástand.“
Forsætisráðherra Spánar fundar nú um stöðu mála í Madrid á meðan forseti Katalóníu fundar með sinni stjórn í Barcelona. „Ef allir fylgja því sem þeir hafa sagt undanfarið, það er ef ríkisstjórn Spánar heldur áfram að standa fast á því að kosningarnar stangist á við stjórnarskrána og Katalónar lýsi yfir sjálfstæði, veit enginn hvað getur gerst. En það væri yndislegt ef einhver myndi sjá ljósið og allir gætu talað saman eins og eðlilegt fólk,“ segir Óttar.
Hann líkir stöðunni sem nú er komin upp við skák þar sem verið er að tefla með líf fólks. „Þegar verið er að beita óeirðalögreglu á fólk þá geta hlutirnir farið í allar áttir. Báðum aðilum er stillt upp við vegg og það er það sem er hættulegt í þessu. Ef að þetta er skák er Katalónía að vinna, þeir eru kænni í öllum sínum aðgerðum. Skilaboð þeirra eru einföld, þeir vilja fá að kjósa en svo mæta þeir þessum þursi í Mardrid sem neita að hlusta og sendir inn óeirðalögreglu.“