Meðallaun á Íslandi 667 þúsund

Framkvæmdir í borginni.
Framkvæmdir í borginni. mbl.is/Golli

Heildarlaun í fullu starfi voru að meðaltali 667 þúsund krónur á mánuði en miðgildi heildarlauna 583 þúsund krónur og var því helmingur launamanna með laun undir þeirri upphæð og helmingur yfir.

Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar þar sem finna má nánari sundurliðun og greiningu. Þar segir að fjórðungur launamanna hafi verið með 470 þúsund krónur eða minna í heildarlaun og tíundi hver launamaður verið með lægri laun en 381 þúsund krónur fyrir fullt starf. Þá hafi fjórðungur launamanna verið með hærri laun en 761 þúsund krónur og rúmlega 10% fullvinnandi launamanna á íslenskum vinnumarkaði með yfir milljón króna á mánuði í heildarlaun.

Að meðaltali voru heildarlaun á almennum vinnumarkaði 697 þúsund krónur á mánuði árið 2016. Heildarlaun ríkisstarfsmanna voru 732 þúsund krónur en 528 þúsund krónur hjá starfsmönnum sveitarfélaga.

Árið 2016 voru heildarlaun starfsstétta að meðaltali á bilinu 479 þúsund krónur á mánuði hjá þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólki til 1.079 þúsund krónur hjá stjórnendum. Heildarlaun skrifstofufólks voru 497 þúsund krónur á mánuði, verkafólks 520 þúsund krónur, tækna og sérmenntaðs starfsfólks 699 þúsund krónur, sérfræðinga 707 þúsund krónur og iðnaðarmanna 715 þúsund krónur á mánuði.

Laun voru mismunandi milli atvinnugreina en heildarlaun voru hæst í atvinnugreininni rafmagns-, gas- og hitaveitur eða 905 þúsund krónur að meðaltali á mánuði og fjármála- og vátryggingastarfsemi 893 þúsund krónur. Lægstu heildarlaunin voru í fræðslustarfsemi, 540 þúsund krónur. Sé horft til dreifingar á heildarlaunum var launamunur mestur innan fjármálastarfsemi en minnstur í fræðslustarfsemi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert