Íslendingar urðu vitni að skotárásinni

Mikið öngþveiti myndaðist þegar fólk reyndi að flýja undan byssuskotunum.
Mikið öngþveiti myndaðist þegar fólk reyndi að flýja undan byssuskotunum. AFP

Eiki Hrafnsson, starfsmaður NetApp Iceland, er staddur á veitingastað á efstu hæðum Mandalay Bay hótelsins í Las Vegas, þar sem byssumaður hóf skotárás klukkan 22:30 að staðartíma, eða klukkan 5:30 í morgun að íslenskum tíma.

Árásarmaðurinn skaut af 32. hæð hótelsins á tónleikavettvang við hliðina á, þar sem kántrítónleikar fóru fram. Yfir 50 eru látnir og meira 200 særðir eftir árásina. Um er að ræða mannskæðustu skotárás sem átt hefur sér stað í Bandaríkjunum.

Eiki var staddur á veitingastaðnum, ásamt tveimur öðrum starfsmönnum NetApp, þegar skotárásin hófst. Þau fóru út á svalir, og urðu vitni að atburðarrásinni sem átti sér stað í kjölfarið, en veitingastaðurinn er staðsettur fyrir ofan 32. hæð.

„Við stóðum úti á svölum og vorum að fylgjast með tónleikunum, sem hafa staðið yfir alla helgina, og vorum nýkomin aftur inn þegar einhver kom hlaupandi og sagði eitthvað vera í gangi þarna úti. Ég fór því aftur út og tók upp símann til að geta „súmmað“ inn og séð betur hvað var að gerast. Þá heyrðum við í skothríðinni og fólk reyndi að flýja utan skotunum,“ segir Eiki um það fyrsta sem hann sá. Hann segir mikið öngþveiti hafa skapast og lögreglubílar hafi komið aðvífandi úr öllum áttum.

Eiki og vinnufélagar hans hafa litlar upplýsingar fengið um ástandið.
Eiki og vinnufélagar hans hafa litlar upplýsingar fengið um ástandið. AFP

Hann segir þau ekki hafa gert sér grein fyrir því strax að verið skotárásin væri gerð frá hótelinu, aðeins nokkrum hæðum fyrir neðan þau. „Þetta hljómaði eins og skotin kæmu frá götunni. Við horfðum bara í áttina að tónleikunum og reyndum að átta okkur á því sem var að gerast. Þetta var alveg hrikalegt. Fólk liggjandi út um allan tónleikastaðinn.“

„Með rifflana í andlitinu á okkur“

Eiki og aðrir gestir veitingataðarins voru læstir inn í af sérsveitinni í kjölfar árásinnar og þau reyna að afla sér upplýsinga úr lögreglutalstöðvum í gegnum Youtube. Hann segir þó rafhlöðuna vera að klárast í flestum símum, enda að minnsta kosti fimm tímar síðan þau voru læst inn. Eiki veit ekki hvað þau þurfa að vera þarna lengi en þau hafa ekki fengið neinar upplýsingar í rúma tvo tíma. „Sérsveitarlögreglan braust þá hingað inn en það var hluti af leit þeirra á hótelinu. Þeir voru ekki mjög fínlegir í aðgerðum sínum. Þeir voru með rifflana í andlitinu á okkur og þá kom svolítið „panikk“ á fólk.“

Hér má sjá hvar árásarmaðurinn var staddur og hvert hann …
Hér má sjá hvar árásarmaðurinn var staddur og hvert hann skaut. mbl

Hann segist hafa heyrt rætt um að smala eigi öllum út af hótelinu en það hafa ekki borist frekari upplýsingar af þeirri aðgerð. „Við bara bíðum. Það liggur fólk hérna sofandi á gólfinu. Ástandið hefur aðeins róast, en það var rosalega mikið stress hérna fyrstu tvo klukkutímana þegar við heyrðum að verið væri að leita á hverri hæðinni á fætur annarri,“ segir Eiki, en þau geta nú lítið annað gert en að bíða eftir frekari upplýsingum frá lögreglu.

Lögregla felldi árásarmanninn fyrir stundu, en hann er sagður vera heimamaður að nafni Stephen Paddock, 64 ára gamall. Þá kemur fram í frétt AFP-fréttastofunnar að lögreglu hafi tekist að staðsetja konu sem var í fylgd Paddock, en ítarleg leit var gerð af henni á hótelinu.

Eiki fylgdist með tónleikunum frá hótelinu þegar árásarmaðurinn hóf skothríð.
Eiki fylgdist með tónleikunum frá hótelinu þegar árásarmaðurinn hóf skothríð. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert