„Fullyrðing um að veiðar með haglabyssu séu ómannúðleg veiðiaðferð á ekki við nein rök að styðjast og fullyrðingar um slíkt úr lausu lofti gripnar,“ segir Indriði R. Grétarsson, formaður SKOTVÍS, í tilkynnningu.
Tilkynningin er skrifuð í tilefni þess að nýstofnuð samtök, Jarðarvinir, hafa lagt fram tvær kærur vegna veiða á rjúpum og hreindýrum.
Frétt mbl.is: Leggja fram kærur vegna veiðimennsku
Í tilkynningunni vill SKOTVÍS koma því á framfæri að veiðar séu nauðsynlegar til að framfylgja stjórnun á stofnstærð hreindýra. Skotveiðar þyki mannúðleg aðferð viðaflífinu dýra og séu samþykktar sem slíkar um allan heim.
Ole Anton Bieltvedt, stofnandi Jarðarvina, sagði við mbl.is í gær að ekki væri farið að lögum um dýravelferð í málefnum villtra dýra, en hann stofnaði samtökin ásamt fjölskyldumeðlimum sínum í sumar. „Við Íslendingar erum gömul veiðimannaþjóð og það situr enn í mönnum að dýrin séu bara eins og hlutir. Menn auðvitað þurftu að drepa fyrr á árum, til að komast af, en nú er þetta bara orðið sport og skemmtimál. Tilfinningaleysið er enn til staðar,“ segir Ole Anton í samtali við mbl.is.
Jarðvinir segja í kæru sinni að hreindýraveiðar brjóti í bága við lög um dýravelferð, þar sem þær séu ekki gerðar af nauðsyn, heldur séu fyrst og fremst skemmtiatriði þeirra sem þær stunda, en í lögunum segi að aflífun dýra sé ekki heimil sem skemmtiatriði. „Ef þröngt væri um hreindýrin á Austfjörðum og næring ófullnægjandi, myndu þau sjálfkrafa dreifa sér víðar um landið. Því er ekki fyrir að fara. Hreindýr eru meinlaus og skaðlaus dýr, sem prýða og auðga náttúru landsins og lífríki,“ segir í kærunni.
Í kærunni segir að kálfar hreindýra þurfi á móðurmjólk að halda í allt að sex mánuði, en þegar hreindýraveiðitímabilið hefjist hinn 1. ágúst séu kálfarnir eingöngu um tveggja mánaða gamlir.
Þessu hafnar SKOTVÍS og bendir á að kálfar séu um það bil þrjá mánuði á spena. „Niðurstaðan eftir að hafa lesið þessar kærur sýnir fram á vanþekkingu og fordóma þess sem það skrifar gagnvart veiðum og veiðistjórnun á Íslandi.“
Kæra vegna hreindýraveiða beinist að Kristínu Lind Árnadóttur, forstjóra Umhverfisstofnunar og Björt Ólafsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, og snýr meðal annars að því að hreinkýr séu skotnar of snemma frá kálfum sínum. Kæra Jarðarvina vegna rjúpnaveiða beinist að Jóni Gunnari Ottóssyni, forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands, Kristínu Lind Árnadóttur hjá Umhverfisstofnun og Björt Ólafsdóttur umhverfisráðherra.
Tilkynning SKOTVÍS í heild:
Vegna kæru Jarðarvina um veiðar á hreindýrum.
Stjórn SKOTVÍS vill koma eftirfarandi á framfæri.
1. Veiðar eru nauðsynlegar til að framfylgja stjórnun á stofnstærð hreindýra.
2. Skotveiðar þykja mannúðleg aðferð við aflífun dýra og eru samþykktar sem slíkar um allan heim.
3. Fullyrðing um að veiðar með haglabyssu séu ómannúðleg veiðiaðferð á ekki við nein rök að styðjast og fullyrðingar um slíkt úr lausu lofti gripnar.
4. Kálfar ganga ekki undir kúm í 6 mánuði, það er nær því að vera 3 mánuðir eða svipað og með sauðfé.
5. Niðurstaðan eftir að hafa lesið þessar kærur sýnir fram á vanþekkingu og fordóma þess sem það skrifar gagnvart veiðum og veiðistjórnun á Íslandi.
Allt tal um að stofn leiðrétti sig með tilheyrandi horfelli og gróðurskemmdum teljum við ekki vera til marks um dýravelferð, frekar væri hægt að segja að þarna væri um eina verstu tegund af dýrníði að ræða ef leggja á til að stofn leiðrétti sig af náttúrulegum orsökum ef offjölgun er um að ræða. Sá gróður sem að hreindýr lifa á er frekar seinvaxinn, og þar sem að hreindýr eru innflutt þá eiga þau sér engan náttúrulegan hemil eins og með úlfa eða önnur rándýr sem halda stofnum í ákveðinni stofnstærð annars staðar.
Að talað sé um skemmtiatriði finnst okkur vera ósmekklegt af hálfu „Jarðarvina“ og lýsir ennþá betur þeirri vanþekkingu sem Jarðarvinir hafa á þessum málaflokk.
SKOTVÍS harmar svona umræðu sem er ekki til þess fallin að skapa málefnalegur umræður og virðist vera eins til þess fallin að vekja athygli á fámennu samtökunum "Jarðarvinum" ....
Fyrir hönd SKOTVÍS.
Formaður
Indriði R.Grétarsson