Trúlofunarástand sveppa getur oft verið langt

Ýmsir sveppir fundust í leiðangri við Rauðavatn.
Ýmsir sveppir fundust í leiðangri við Rauðavatn. mbl.is/Golli

„Við fórum í gamla beykiskóga með stöku eikum í bland, það er mjög gaman en hérlendis eru ekki svona hávaxnir, gamlir skógar. Þetta var lærdómsríkt og skemmtilegt, maður kynnist öðrum sveppafræðingum, myndar sambönd og ræðir helstu sveppamálin. Það uppgötvast nýir og spennandi sveppir og það bætast jafnvel við tegundir fyrir landið.

Við sáum t.d. hvítserk, Amanita virosa, mjög eitraðan ættingja berserkjasvepps, sem er hvítur og stæðilegur og veldur skemmdum á líffærum og dauðsföllum ef hans er neytt,“ segir Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands (NÍ) á Akureyri, sem stýrir þar svepparannsóknum og vísindalegu sveppasafni stofnunarinnar, miðstöð svepparannsókna á Íslandi. Í síðari hluta septembermánaðar var haldin svepparáðstefnan Nordic Mycological Congress í 23. sinn, þar sem helstu sveppasérfræðingar koma saman til að tína sveppi og bera saman bækur sínar, en Guðríður Gyða lét sig ekki vanta þar.

Ástríða fyrir sveppum

„Ég fæddist síðasta sólardaginn haustið 1959 á Landspítalanum en þá bjuggu foreldrar mínir á Vatnsleysuströnd. Eftir það rigndi stöðugt, heyið þornaði ekki og varð að rudda það árið. Svo þegar ég var á áttunda ári fluttum við upp í sveit og foreldrar mínir tóku við búinu af afa og ömmu í Bryðjuholti í Hrunamannahreppi,“ segir Guðríður Gyða af lífshlaupi sínu.

„Ég fór í Menntaskólann að Laugarvatni og þaðan í Háskóla Íslands í líffræði. Ég fékk sumarvinnu 1982 og 1983 hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins (RALA) við að einangra jarðvegssveppi í beitarlandi, en athygli hafði vakið að lömb þrifust illa þótt nóg væri grasið í ákveðnum beitartilraunum. Vísindamenn frá Kanada höfðu gert svipaðar rannsóknir og fóru þeir í samstarf við RALA. Í framhaldinu fékk ég inni í námi í sveppafræðum við Manitoba-háskóla í Winnipeg í Kanada. Ég rannsakaði sveppi sem barkarbjöllur bera inn í við og valda gráma þannig að viðurinn fellur í verði,“ segir Guðríður Gyða sem útskrifaðist með doktorsgráðu í sveppafræðum haustið 1990.

„Ástríða mín fyrir sveppum byrjaði vorið 1981 þegar ég ákvað að taka fjórða árs verkefni í líffræði um jarðvegssveppi hjá grasafræðiprófessornum Herði Kristinssyni og ég hef svo sannarlega ekki séð eftir því, þetta er stöðugt fjör,“ segir Guðríður Gyða og hlær við. „Ég átti Sveppakverið eftir Helga Hallgrímsson og vopnuð því ásamt bók með máluðum myndum af helstu gerðum sveppa fór ég og skoðaði sveppi, teiknaði þá og reyndi að greina. Um haustið tók ég jarðvegssýni úr landi foreldra minna og ræktaði upp sveppi sem í moldinni leyndust,“ bætir hún.

Neðanjarðarveröld sveppa

Fallega bleik Goðhelma Mycena adonis fannst fyrst érlendis 2009.
Fallega bleik Goðhelma Mycena adonis fannst fyrst érlendis 2009. Ljósmynd/Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir


„Sveppir mynda neðanjarðarhagkerfi sem sést ekki. Þeir sveppir sem valda tjóni eru yfirleitt rannsakaðir og vel þekktir, en svo eru sveppir sem vaxa t.d. á arfa og eru mun minna þekktir. Það er hægt að nota sveppi við að halda niðri skordýraplágum og er þá talað um lífrænar varnir. Sveppir eru oft í samlífi við aðrar lífverur, svepprótarsveppir mynda t.d. útræna svepprót á furu, lerki og birki og sjá um að taka upp næringarefni og vatn og flytja trjánum en þiggja í staðinn kolefni frá þessum sambýlingum sínum. Fléttur eru sambýli svepps og þörungs af svipaðri ástæðu. Í skógrækt ætlaðri til að binda kolefni verða sveppirnir að vera með því um sveppina fer kolefnið niður í jarðveginn. Sveppir eru búnir til úr fíngerðum þráðum sem virka eins og lifandi rör og flytja vatn og næringarefni langar leiðir. Tré treysta því á samlífi við sveppi,“ segir Guðríður Gyða.

Stærsta lífvera heims er sveppur, en menn komust að því að sami sveppurinn er með þráðakerfi sitt úti um heilan skóg. Það er líklegt að það hafi tekið hundruð ef ekki þúsundir ára, en sýnatökur um allan skóginn með genarannsóknum leiddu í ljós að um sama einstaklinginn var að ræða.

„Sveppir eru oft eins og kóngulóarvefur neðanjarðar, þeir vaxa eins og þræðir út frá grói og mynda hring eða bolta neðanjarðar og það sem er okkur sýnilegt er það sem kallað er sveppaldin, en í þeim fer kynæxlunin fram. Sveppir eru yfirleitt í löngu „trúlofunarástandi“, karlkyns og kvenkyns kjarnar renna saman í kólflaga frumum sem klæða fanir eða pípur aldinsins og síðan myndast gróin, afkomendurnir, þar tilbúnir til dreifingar. Þess vegna eru margir sveppir á staf, til að vindurinn nái að blása upp undir hattinn og dreifa gróunum þegar þau losna undan hattinum. Algengt er að sjá sveppi kringum tré og eru það þá oft aldin svepprótarsveppa sem eru í samífi við rætur þeirra,“ segir Guðríður Gyða.

Áhugasamir á Facebook

Guðríður Gyða sveppafræðingur nýtur sín við að tína spennandi sveppi …
Guðríður Gyða sveppafræðingur nýtur sín við að tína spennandi sveppi í litríku haustinu. mbl.is/Golli


Guðríður Gyða heldur úti forvitnilegri Facebook-síðu, Funga Íslands - sveppir ætir eður ei. Meðlimir hópsins eru duglegir að setja inn myndir af sveppum og bera saman bækur sínar.

„Þetta er mjög skemmtilegt, ég fæ fréttir af sveppum úr öðrum landshlutum og stundum setur fólk inn spennandi sveppi sem eru sjaldséðir eða hafa fundist á nýjum stöðum,“ segir Guðríður Gyða sem svarar líka gjarnan fyrirspurnum frá áhugasömum.

„Besti tíminn til að byrja að tína sveppi er oft um verslunarmannahelgina, en það fer þó eftir árferði og jafnvel því hvernig árið á undan var. Ef sumarið er kalt eða þurrt þá getur sveppunum seinkað. Upp úr miðjum júlí getur maður farið að búast við sveppum. Kúalubbinn vex þó jafnvel fyrr. Þegar fer að líða á ágúst fer að verða hætta á næturfrostum og skemmast þau aldin sem eru komin upp. Ef maður ætlar að vera viss um að ná matsveppum er gott að byrja upp úr miðjum júlí,“ segir Guðríður Gyða og bætir við að sér sjálfri finnist furusveppur og lerkisveppur bestir til matar.

Guðríður Gyða mælir með að ef fólk ætlar að skoða sveppi þá sé best að stinga hníf undir stafinn og lyfta sveppnum varlega upp, taka mynd ofan á hann, af stafnum og upp undir fanirnar, því það auðveldi greininguna en oft getur verið erfitt að tegundargreina sveppi og stundum sé það jafnvel ekki hægt nema með smásjá.

Aðspurð hvað Guðríður Gyða hafi að segja ungu fólki sem langar að læra sveppafræði: „Drífa í því, í þessu fagi er eitthvað nýtt og spennandi á hverjum degi, stöðugur lærdómur og vitað er að mjög margir sveppir hafa enn ekki verið uppgötvaðir þannig að sviðið er óplægður akur um langa framtíð. Sveppir framleiða allskonar efni, t.d. er hægt að nota suma þeirra við að eyða mengun og til að bæta tjón sem orðið hefur á náttúrunni, nú er verið að gera gervileður úr ákveðnum svepp, múrsteina, stóla og ótrúlegustu hluti. Svo eru sveppir notaðir í skógrækt, við framleiðslu lyfja og flókinna efnasambanda fyrir iðnað og matvæli. Það eru mörg tækifæri tengd sveppafræði. Sveppabókin hans Helga Hallgrímssonar sem hann gaf út 2010 um sitt ævistarf á sviði sveppafræði, er ómetanleg fyrir alla sem hafa áhuga á sveppum. Sveppir eru fjölbreyttir að lit, áferð, lykt, formi og á bragðið þannig að þeir eru margslungið og skemmtilegt viðfangsefni. Sveppir koma sífellt á óvart!“

Arfur Helga Hallgrímssonar

Spennandi sveppir.
Spennandi sveppir. mbl.is/Golli


Hjá Náttúrufræðistofnun Íslands á Akureyri er sveppabókasafn og sveppasafn. „Safnið er vísindasafn og sýnunum er raðað í kassa á stærð við skókassa svo þau klessist ekki. Þau eru skráð í alþjóðlegan sveppagagnagrunn á netinu, www.gbif.org, þar er hægt að nálgast upplýsingar um sveppi úti um allan heim. Grunnurinn að safninu er frá upp úr 1960 þegar Helgi byrjaði að safna sveppum.

Um 16.000 skráð sýni eru til í safninu á Akureyri, en sum sýni á enn eftir að greina betur og skrá,“ segir Guðríður Gyða, sem segir jafnframt að þurrkuð sýni geti geymst lengi, jafnvel áratugum saman og nýst við sameindarannsóknir. Safnið inniheldur fyrst og fremst sveppi sem hafa fundist hérlendis þó eitthvað sé til af erlendum sýnum sem hafa borist safninu að gjöf.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert