Bægslagangur í hvalnum á leið út á sjó

Skepnan reyndi að komast úr grynningunum.
Skepnan reyndi að komast úr grynningunum. Ljósmynd/Hösk­uld­ur Erl­ings­son

Sex menn úr björgunarsveitinni Húnum auk lögreglu, héraðsdýralæknis og skipverja um borð í bátnum Hörpu, sem er gerð út af Hvammstanga, tóku þátt í umfangsmiklum björgunaraðgerðum þegar um 10 metra löng hrefna var dregin út á sjó. Hvalurinn strandaði í vestanverðum Hrútafirði um klukkan 11 í gær.

Björgunarsveitin fékk útkall um klukkan 14 í gær og hófust björgunaraðgerðir skömmu síðar. Hrefnan var komin á flot og út í sjó rúmlega fimm síðdegis. 

„Ég hef aldrei lent í svona útkalli áður. Þetta gekk ágætlega en það var mikið bras að reyna að koma stroffunni utan um sporðinn á hrefnunni. Það var mikill bægslagangur,“ segir Kristján Svavar Guðmundsson, formaður björgunarsveitarinnar Húna, sem tók þátt í björgunaraðgerðum. 

Allt gekk þetta að lokum og náðu vel útbúnir björgunarsveitarmenn í flotgöllum og blautbúningum að hlúa að skepnunni og koma togi utan um hana.  

Ljósmynd/Hösk­uld­ur Erl­ings­son

„Hún var orðin þreklítil þegar hún var dregin út. Hún buslaði og andaði. Það spurning um hvernig henni reiðir af núna,” segir Kristján og bætir við að það hafi verið magnað hafa náð að vera í miklu návígi við skepnuna. 

Björgunarbátur var notaður í björgunaraðgerðunum.
Björgunarbátur var notaður í björgunaraðgerðunum. Ljósmynd/Hösk­uld­ur Erl­ings­son

Fjölmargir fylgdust með björgunaraðgerðunum og tóku myndir. Sá fjöldi hafði ekki áhrif á starfið, að sögn Kristjáns. 

Ljósmynd/Hösk­uld­ur Erl­ings­son
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert