Hugmyndir Reykjavíkurborgar þess efnis að leikskólabarn geti verið heima hjá nýfæddu systkini sínu hluta úr degi hafa fallið í grýttan jarðveg á samfélagsmiðlum. Greint var frá því í Morgunblaðinu í morgun að þetta væri ein þeirra hugmynda til að mæta manneklu og efla mannauð á leikskólum borgarinnar.
Fjallað er um málið í Facebook-hópnum Mæðratips. „Af hverju að taka barnið úr rútínu af því það var að eignast systkini? Alveg nóg að barnið sé að venjast breytingum á heimilinu,“ skrifar ein móðirin þar.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, sagði í samtali við Morgunblaðið að hugmyndin á bak við þetta sé ákveðið fjölskyldufrí og hugmyndin sé komin frá Svíum.
„En okkur skilst reyndar að Svíarnir hafi hætt þessu,“ sagði Helgi.
Ein móðir hefur reynslu af þessu kerfi frá Svíþjóð og segir það ekki virka vel. „Þetta var algjört hark og ömurlegt að þurfa að vera með eldra systkinið heima allan daginn. Sænskir foreldrar eru almennt hundóánægðir með þetta,“ segir hún og telur hugmyndir borgarinnar ekkert nema sparnaðarleið.
„Hvernig væri að ráða bara nóg af starfsmönnum á leikskólana í staðinn fyrir að velta öllu yfir á borgarana. Það mætti t.d. fækka aðstoðarmönnum ráðherra til að fjármagna þetta,“ skrifaði ein úrræðagóð móðir.
„Þetta er í alvörunni fáránlegasta hugmynd sem ég hef heyrt. Þetta getur ýtt undir fæðingarþunglyndi þar sem móðir/faðir þurfa að sjá um of mikið til að geta eytt tíma með nýfædda barninu og myndað tengsl,“ skrifar önnur á Mæðratips.
Einnig er bent á að fæðingarorlof sé ekki það frí sem margir virðast halda, heldur heilmikil vinna.
„Þetta er það heimskulegasta sem ég hef heyrt. Þeir eru að hylma yfir að þeir tíma ekki að reka leikskóla!!!!“ skrifar ein.