„Það er óalgengt að stórir skjálftar mælast á þessu svæði. Það eru vísbendingar um smávægilega aukna virkni á svæðinu frá árinu 2016,“ segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, um jarðskjálfta sem var 3,2 að stærð í Öræfajökli kl. 13:52 í dag.
Skjálftinn fannst vel í Öræfasveitinni. Enginn eftirskjálfti hefur mælst á svæðinu. Síðast mældist skjálfti í Öræfajökli árið 2005. Einar segir ekki einkennilegt að engir eftirskjálftar hafi mælst og mögulegt að öll spennan hafi verið losuð í einu.
Einar segir erfitt að segja til um hvers vegna þessi skjálfti hafi komið. „Það hefur verið mikið vatnaveður á svæðinu undanfarið. Það eru vísbendingar um aukna virkni en það gæti einnig tengst því að fleiri mælitækjum hefur verið komið fyrir á svæðinu,“ segir Einar.
Hann segir að ekkert sé að óttast á þessu svæði. Áfram verður fylgst náið með svæðinu. Næstu daga meta sérfræðingar stöðuna og kanna möguleikann á að setja upp frekari mælitæki á svæðinu.