„Þetta kemur þessu Wintris-máli aftur beint inn í pólitísku umræðuna. Ég myndi segja að þetta mál sé jafn opið og áður og ég veit ekki hversu heppilegt það er fyrir Sigmund Davíð,“ segir Stefanía Óskarsdóttir, lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, upplýsti í aðsendri grein í Fréttablaðinu í gær að yfirskattanefnd hefði á dögunum kveðið upp úrskurð vegna málefna félagsins Wintris sem frægt varð á síðasta ári í umfjöllun um Panamaskjölin.
Niðurstaða yfirskattanefndar er sú að Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar, hafi ofgreitt skatta vegna félagsins á árunum 2011-2015. Í úrskurðinum kemur fram að Anna Sigurlaug hafi farið fram á leiðréttingu framtala sinna hinn 16. maí 2016. Það er eftir að tilvist félagsins komst í hámæli. Sigmundur leggur á það áherslu í grein sinni að úrskurðurinn segi að ekki hafi verið gerð tilraun til skattaundanskots. Í erindinu er hins vegar viðurkennt að ekki sé útilokað að réttara hefði verið að haga skattskilum félagsins í samræmi við svokallaða CFC-löggjöf á umræddu tímabili.
„Maður sér nú með því að lesa frásagnir fjölmiðla að það er hægt að leggja málið mismunandi upp. Þetta er flókið mál og þegar útskýringarnar eru orðnar mjög langar þá er hætt við að fólk lesi þær ekki,“ segir Stefanía.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, segir að það þurfi ekki að koma á óvart að Sigmundur kjósi að upplýsa sjálfur um úrskurð yfirskattanefndar. Það sé ákveðin taktík og eðlilegt í ljósi þess að hann sé að stofna nýjan flokk og á leið í framboð.
Telurðu að Sigmundur Davíð sé búinn að gera hreint fyrir sínum dyrum varðandi Wintris-málið?
„Það þarf enginn að efast um að rétt hafi verið farið að. En í raun og veru er ekki búið að klára þetta mál þó það sé búið að skýra eina hlið á því. Það á svo eftir að koma í ljós hvort þetta hefur einhver áhrif á kjósendur, ég geri mér enga grein fyrir því,“ segir Grétar Þór.