Tæplega 200 nýtt sér þjónustu Bjarkarhlíðar

Ragna Björg Guðbrandsdóttir og Hafdís Inga Hinriksdóttir starfa í Bjarkarhlíð.
Ragna Björg Guðbrandsdóttir og Hafdís Inga Hinriksdóttir starfa í Bjarkarhlíð. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Á þeim sex mánuðum sem Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, hefur starfað hafa 193 einstaklingar leitað eftir þjónustu þar. 175 konur og 18 karlar. Íslendingar eru í miklum meirihluta, eða 171.

Einstaklingar sem koma frá löndum innan Evrópu eru 15 talsins en 7 utan. Langflestir þeirra sem hafa nýtt þjónustu miðstöðvarinnar eru búsettir í Reykjavík, eða 128 talsins.

Yfir helmingur málanna eru vegna heimilisofbeldis, eða 56 prósent. Er þá um að ræða andlegt-, líkamlegt- og/eða kynferðislegt ofbeldi. Einnig hafa komið á borð Bjarkarhlíðar nokkur mál þar sem einstaklingar leita aðstoðar við að komast út úr vændi. Flestir leituðu sér aðstoðar í júlí, eða 47 talsins

Í Bjarkarhlíð starfar rannsóknarlögreglukona í fullu starfi sem kom að málum 106 einstaklinga fyrstu sex mánuðina. Flestir leituðu til lögreglu vegna heimilisofbeldis eða  kynferðisofbeldis, en samtals voru lagðar fram 36 kærur í framhaldi af viðtali við lögregluna.

Í tilkynningu frá Bjarkarhlíð segir að leiða megi að því líkur að þessar kærur hefðu ekki komið fram ef ekki hefði verið fyrir þjónustu lögreglunnar í Bjarkarhlíð.

Bjarkarhlíð er tilraunaverkefni til þriggja ára og samstarfsverkefni níu aðila sem allir hafa langa reynslu og góða þekkingu á málaflokknum.

Miðstöðin veitir þolendum ofbeldis viðtöl hjá samstarfsaðilum þeim að kostnaðarlausu, á þeirra forsendum. Ásamt lögreglukonu starfa þar tveir félagsráðgjafar sem veita þolendum ráðgjöf og upplýsingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert