Bráðabirgðabrú yfir Steinavötn verður opnuð í hádeginu, eða eins og Ingunn Loftsdóttir, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni, sagði í samtali við mbl.is: „Brúin verður opnuð hvað úr hverju.“
Starfsmenn Vegagerðarinnar hafa unnið hörðum höndum undanfarna daga að smíðinni. Gert er ráð fyrir því að í það minnsta tvö ár séu í að varanleg brú verði opnuð yfir Steinavötn.
„Bráðabirgðabrúin er 104 m löng brú, reist á tréstaurum sem reknir eru niður í sandinn, smíðuð eru svokölluð ok sem bera stálbita, eða I-bita og ofan á þá er síðan lagt timburgólf. Á brúnni er auðvitað líka vegrið og ljós til að vara við einbreiðri brú,“ sagði í tilkynningu Vegagerðarinnar.
Uppfært kl. 12.32 : Klukkan tólf á hádegi var umferð hleypt á nýja bráðabirgðabrú yfir Steinavötn og er þá Hringvegurinn allur opinn á ný.