Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor, sem var í gær skipaður fulltrúi stjórnvalda í verðlagsnefnd búvara, gerir ráð fyrir að þurfa að leggja sig fram um að koma sjónarmiðum neytenda á framfæri í nefndinni. Hann gefur lítið fyrir gagnrýni bændaforystunnar á skipan sína og segist vanur að sitja þar sem ólíkir hagsmunir takast á.
Arnar Árnason, formaður Landsambands kúabænda, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að Þórólfur væri yfirlýstur andstæðingur íslenska landbúnaðarkerfisins. Hann hafi gagnrýnt núverandi kerfi og sagt að það fúnkeri ekki, án þess að setja fram einhverjar lausnir. Þá hafa þau orð verið látin falla að skipan Þórólfs sé gerð til þess að valda úlfúð og ringulreið í kringum starf nefndarinnar.
Þórólfur segir þau orð sem látin hafa verið falla vera á ábyrgð eigenda sinna og finnst hann ekki þurfa að tjá sig sérstaklega um þau. „Mér þykir vænt um það traust sem ráðherrarnir tveir sýna mér og reyni bara að standa undir því trausti,“ segir hann og vísar þar til Þorsteins Víglundssonar velferðarráðherra og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur landbúnaðarráðherra.
„Þegar ég fékk fyrirspurn um að taka þetta að mér þá skoðaði ég lögin og ég get ekki séð annað en að ég hafi ákveðið verk að vinna. Ég hyggst ekki gera neitt annað en að sinna því.“
Hvort hann sjái fyrir sér að reyna að breyta kerfinu, segir Þórólfur það ekki hlutverk nefndarinnar. Hins vegar áskilji hann sér rétt til þess að gera tillögur að úrbótum við ráðherra málaflokksins þyki honum ástæða til. Hann vísar aftur í lögin og segir að þar sé að finna ákveðna forskrift að því hvernig nefndin á að starfa. „Ég hyggst fá svör við því í upphafi hvernig þessari forskrift hafi verið fylgt. Ef henni hefur ekki verið fylgt þá verði gerðar úrbætur þar á í samræmi við lögin.“
Aðspurður hvort hann hafi fyrirfram ákveðnar hugmyndir um úrbætur segir hann rétt að það komi fram á nefndarfundum. „Mér finnst nóg að gert að menn séu með yfirlýsingar í fjölmiðlum.“
Þrátt fyrir mikla gagnrýni og að stór orð hafi verið látin falla ætlar Þórólfur ekki ákveða það fyrirfram að fulltrúar í nefndinni geti ekki starfað saman. „Það eru menn þarna sem hafa farið fram á að ég yrði rekinn frá háskólanum en það verða menn bara að eiga við sig. Ég tek það mál ekki upp innan þessar nefndar.“
Þórólfur telur sig hafa rétt á því að hafa skoðanir á mörgu og að hann hafi ágætisbakrunn til að hafa skoðanir á hagfræði landbúnaðar og atvinnuvega. Þá hafi hann reynslu af því að sitja þar sem ólíkir hagsmunir takast á. „Ég hef í gegnum tíðina setið í samninganefndum um kaup og kjör þar sem takast á hagsmunir, en ég þekki engan mann sem hefur gengið út þegar ég hef komið inn í herbergi. Ég hef ágætisreynslu af því að sitja þar sem ólíkir hagsmunir takast á og það hefur ekki verið kvartað undan minni vinnu hingað til.“
Þórólfur segist alltaf hafa getað talað við alla og það verði engin breyting á því. „Ég er bara fenginn þarna til að starfa í samræmi við verkefni nefndarinnar og það hyggst ég gera. Nefndinni er ætlað að horfa til tvennskonar sjónarmiða og það er rétt að halda því til haga. Kannski hafa þau sjónarmið ekki öll verið uppi á borðinu fram til þessa.“
Ertu þá að segja að sjónarmið bænda hafi verið meira uppi á borðum en annarra?
„Það má lesa ákvarðanir á undangengnun árum með þeim hætti,“ segir Þórólfur sem gerir ráð fyrir að hann muni beita sér fyrir því að sjónarmið neytenda verði meira uppi á borðum en áður. „Ég tel ekki að sjónarmið bænda og afurðarstöðva séu undir í þessari nefnd. Ég tel að þau sjónarmið muni koma fram og ég þurfi þess vegna að leggja meira á mig til að koma fram sjónarmiðum neytenda.“