„Staðan er mjög alvarleg,“ segir Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, um þá stöðu sem uppi er á Eyjafjarðarsvæðinu. Þar er raforka af skornum skammti. Bæjarfulltrúar Akureyrarbæjar samþykktu bókun þess efnis á fundi í morgun að verði ekki hægt að tryggja svæðinu nægt rafmagn á næstu þrjú árin, hyggist bærinn reisa dísilrafstöðvar.
Jón segir að ekki sé rétt að ræða um hótun af hálfu norðanmanna, eins og mbl.is skrifaði í morgun. Fram hafi komið að Landsnet sé að skoða að reisa dísilaðstöðu fyrir rafstöðvar á Akureyri. Ástæðan sé sú að flutningskerfið inn á svæðið anni ekki þörfinni. Hann segir að um hríð hafi staðan verið sú í Eyjafirði að fyrirtæki geti ekki stækkað og ekki sé hægt að taka við fyrirtækjum sem hafi þó ekki þörf fyrir nema 10 til 20 megavött. Þar sé ekki verið að tala um neina stóriðju.
Hann segir að vandamálið eigi við víðar á Norðurlandi en hann hafi síðast í morgun setið fund með Samtökum iðnaðarins þar sem farið var yfir innviðauppbyggingu. Þar hafi þetta mál verið rætt. „Þetta er óleyst vandamál og það kostar okkur mikið að geta ekki nýtt það rafmagn sem við framleiðum.“
Í því samhengi bendir hann á að langvinnar deilur um legu nýrrar háspennulínu haldi þessu brýna verkefni í gíslingu. Ef lagning línu frá Þeistareykjum sé undanskilin hafi Landsnet ekkert getað komist áleiðis með uppbyggingu á raforkukerfinu í tíu ár. „Kerfið okkar stoppar þetta. Það eru endalausar kærur og ósamstaða um hvaða leiðir á að fara,“ segir Jón. Hann segir að hin leiðin til að afla raforku væri að virkja á Norðurlandi. En það tæki líka langan tíma.
Hann nefnir að sumir vilji línu um Sprengisand, þvert yfir landið, en aðrir vilji að línan fari hringinn í kring um landið. „Á meðan menn deila um þetta gerist ekkert. Það er engin lausn í pípunum.“ Hann segir að enn gæti orðið langt í að úr rætist. „Þetta er bara staðan á Eyjafjarðarsvæðinu, að það er ekki hægt að tryggja atvinnuöryggi. Það er auðvitað fáránlegt að þetta skuli vera staðan á Íslandi.“