Verði ekki hægt að tryggja raforku til Eyjafjarðar næstu þrjú árin hyggjast Akureyringar reisa díselrafstöðvar til að anna eftirspurninni. Bókun þess efnis samþykkti bæjarstjórn samhljóða á fundi í morgun.
Fram kemur í bókuninni að bæjarstjórn lýsi áhyggjum af stöðu raforkumála í Eyjafirði. Ástandið sé mjög viðkvæmt og hamlandi til atvinnuuppbyggingar sem þarfnist raforku. Þar er nefndur léttur iðnaður. Fyriræki í firðinum lendi reglulega í vandræðum vegna ótryggra raforkuflutninga inn á svæðið ásamt spennuflökti. Slíkt hafi valdið vandræðum og tjóni. RÚV greindi fyrst frá.
„Bæjarstjórn Akureyrar gerir athugasemdir við seinagang stjórnvalda og opinberra aðila í þessum málum og skorar á tilvonandi þingmenn að beita sér í málinu en afar mikilvægt er að jafna aðstöðu landsmanna til atvinnuuppbyggingar og búsetu,“ segir í bókuninni.
Að endingu segir að bæjarstjórn sjái ekki annan möguleika en að reistar verði dísilrafstöðvar, verði ekki hægt að tryggja raforku inn á svæðið frá vatns- og gufuaflsvirkjunum næstu þrjú árin „þar til umhverfisvænni lausnir verða að veruleika.“