Staðsetningaumræðan komin fram yfir síðasta söludag

Landspítalinn við Hringbraut. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir ánægjulegt að …
Landspítalinn við Hringbraut. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir ánægjulegt að sjá að stuðningur við uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut sé góður. mbl.is/Ómar

Umræðan um staðsetn­ingu Land­spít­al­ans er löngu kom­in fram yfir síðasta sölu­dag að mati Páls Matth­ías­son­ar, for­stjóra Land­spít­al­ans. Í viku­leg­um pistli sín­um sem birt­ur er á vef spít­al­ans seg­ir Páll  ánægju­legt að flest­ir þátt­tak­enda í nýrri könn­un Frétta­blaðsins telji heil­brigðismál­in vera mik­il­væg­ust.

„Enn á ný send­ir al­menn­ing­ur stjórn­mála­fólki skýr skila­boð um hvaða mál brenna helst á sér,“ seg­ir Páll í pistli sín­um. Einnig sé ánægju­legt að sjá að stuðning­ur við upp­bygg­ingu Land­spít­al­ans við Hring­braut sé góður „enda ætti umræða um staðsetn­ingu Land­spít­ala að vera löngu lokið, eft­ir nærri tveggja ára­tuga þóf.“

Heil­brigðismál séu flók­in og í stað þess að ræða um heild­ar­sýn á mála­flokk­inn þá strandi umræðan um mála­flokk­inn iðulega í ein­hverj­um misáhuga­verðum af­kim­um.

Umræðan í skötu­líki

„Gott dæmi um þetta er staðsetn­ing­ar­um­ræðan sem er löngu kom­in fram yfir síðasta sölu­dag og ég tel að kunni að hafa haft þau áhrif að stjórn­mál­in hafi að ein­hverju leyti misst yf­ir­sýn yfir þá flóknu skipu­lags­heild sem heil­brigðisþjón­ust­an er,“ seg­ir Páll. Umræða um al­vöru upp­bygg­ingu innviða þjón­ust­unn­ar sé í skötu­líki og fjár­mögn­un­ar­um­ræðan rugl­ings­leg.

„Þetta er á sama tíma og við verj­um tölu­vert minna hlut­falli lands­fram­leiðslu til heil­brigðismála en önn­ur nor­ræn lönd. Þetta er líka á sama tíma og sam­an­b­urður við evr­ópsk OECD-lönd sýn­ir að Ísland hef­ur und­an­far­in ár vermt botnsætið í hlut­falls­legu fé til innviðaupp­bygg­ing­ar í heil­brigðisþjón­ustu, er tölu­vert neðar en Rúm­en­ía sem er næst­neðst.“

Hann hafi áður vísað til hinn­ar „heil­ögu þrenn­ing­ar“ sem umræða Land­spít­al­ann eigi að hvarf­ast. „Starf­sem­in okk­ar hvíl­ir á þrem­ur stoðum og sé ein þeirra veik líður starf­sem­in öll fyr­ir,“ seg­ir Páll. „Því dug­ir ekki að horfa ein­ung­is til fjár­mögn­un­ar rekstr­ar, þótt það sé nauðsyn­legt. Sam­hliða verður að fjalla um innviðaupp­bygg­ingu og ekki hvað síst huga að mönn­un.“

Tæki­færi fyr­ir stjórn­mál­in að tryggja viðun­andi rekstr­ar­fé

Nú sé tæki­færi fyr­ir stjórn­mál­in að tryggja spít­al­an­um viðun­andi rekstr­ar­fé til starf­sem­inn­ar. Þá verði að byggja upp innviði starf­sem­inn­ar og skilja hvorki und­an eðli­lega end­ur­nýj­un tækja­búnaðar né viðun­andi viðhald og end­ur­nýj­un bygg­inga.

„Síðast en alls ekki síst er öll umræða um heil­brigðismál mark­laus sem ekki tek­ur á stærstu áskor­un sam­tím­ans í mála­flokkn­um; mönn­un heil­brigðis­stétta. Ég vil enn og aft­ur ít­reka mik­il­vægi þess að sá vandi er ekki framtíðar­vandi, við glím­um við hann á hverj­um degi og bú­ast má við að hann auk­ist á sama tíma og álag á heil­brigðisþjón­ust­una eykst með breyt­ing­um á ald­urs­sam­setn­ingu þjóðar­inn­ar. Með breyt­ing­um á launa­kjör­um lækna á síðustu miss­er­um hef­ur staðan á Land­spít­ala hvað þá stétt varðar batnað til muna. Hins veg­ar eru kjör annarra heil­brigðis­stétta áhyggju­efni og má þar nefna m.a. líf­einda­fræðinga, geisla­fræðinga og sjúkra­liða. Sér­stak­lega verður að horfa til hjúkr­un­ar­fræðinga, sem eru hryggj­ar­stykki í starf­semi hvers sjúkra­húss, sem ein heil­brigðis­stétta er læst inni í kjara­dómi. Þetta er veru­legt áhyggju­efni og við sjá­um áhrif þessa á degi hverj­um. Hér er verk að vinna.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert