Átta læknar stefna ríkinu

Frá Landspítalanum.
Frá Landspítalanum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Átta læknar ætla að stefna íslenska ríkinu vegna synjunar á samningi um greiðsluþátttöku við Sjúkratryggingar Íslands.

Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.

Alls hefur ellefu læknum í hinum ýmsu sérgreinum verið synjað um samning bæði á þessu ári og í fyrra.

Heilbrigðisráðuneytið vinnur við að greina vandann og leita að lausnum.

Í rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands og sérgreinalækna á samstarfsnefnd að meta hvort sérfræðilæknar fái samning sem felur í sér að ríkið greiði niður þjónustuna sem þeir veita.

Síðasta vor ákvað ráðuneytið að fleiri læknar fengju ekki samning, samkvæmt tímabundinni ráðstöfun.

Kristján Guðmundsson, háls-nef- og eyrnalæknir og formaður samninganefndar Læknafélags Reykjavíkur, segir í samtali við RÚV að um sé að ræða skýlaust brot vegna þess að þörf á læknum sé ekki metin.

Leggur félagið til að læknarnir höfði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til að viðurkenning fáist á því að samningurinn hafi verið brotinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert