Friðlandið stækkað umtalsvert

Þjórsárver
Þjórsárver mbl.is/Rax

Friðlandið í Þjórsárverum verður stækkað í dag. Verður það gert með því að umhverfis- og auðlindaráðherra undirritar auglýsingu þess efnis. Hið nýja friðland verður tæpir 1.563 ferkílómetrar að stærð. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.

Tillaga að mörkum og friðlýsingarskilmálum stækkaðs friðlands Þjórsárvera var auglýst til kynningar í upphafi júlímánaðar. Frestur til að skila inn athugasemdum rann út 3. október síðastliðinn. Um var að ræða skilmála og afmörkun sem komist var að samkomulagi um við sveitarfélög á svæðinu vorið 2013.

Þjórsárver voru fyrst friðlýst árið 1981. Núverandi friðland er tæpir 358 ferkílómetrar. Friðlandið mun því rúmlega fjórfaldast að flatarmáli.

Líkt og fram kom í frétt Morgunblaðsins í júní kynnti umhverfisráðherra  fulltrúum sveitarfélaga hugmyndir um að hefja á ný vinnu við stækkun friðlands Þjórsárvera. Byggt er á tillögum og afmörkun sem átti að staðfesta á árinu 2013 en var frestað að kröfu þáverandi umhverfisráðherra vegna andstöðu Landsvirkjunar.

Nokkrar atlögur hafa verið gerðar að því að stækka friðland Þjórsárvera. Þær hafa hingað til strandað á því að ekki hefur náðst sátt meðal hagsmunaaðila. Lengst var málið komið í júní 2013 þegar öll sveitarfélögin höfðu lýst sig samþykk stækkun friðlandsins og aðeins vantaði undirskrift ráðherra. Búið var að baka og undirbúa samkomu í Árnesi til að ganga frá málinu þegar Umhverfisstofnun þurfti að „fresta“ frágangi málsins að kröfu Sigurðar Inga Jóhannssonar umhverfisráðherra. Vísaði hann til andstöðu Landsvirkjunar og athugasemda tiltekinna sveitarfélaga.

Sú tillaga gerði ráð fyrir að allur Hofsjökull yrði innan friðlandsins og allt votlendi mýranna. Jafnframt átti að útiloka endanlega miðlun vatns úr efsta hluta Þjórsár til virkjana Landsvirkjunar, svonefnda Norðlingaöldu. Sigurður Ingi kom með aðra tillögu sem ekki gerði ráð fyrir útilokun vatnsmiðlunar.

Frá Þjórsárverum.
Frá Þjórsárverum. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert