Það kom Agli Sigurðssyni, oddvita Ásahrepps, á óvart þegar hann heyrði af því í morgun að umhverfis- og auðlindaráðherra væri búin að undirrita auglýsingu um friðlýsingu vegna stækkunar friðlands í Þjórsárverum. Hreppsnefndin hafði ekki skilað inn umsögn vegna fyrirhugaðrar stækkunar, og taldi sig hafa frest fram yfir hreppsnefndarfund, sem haldin verður næsta miðvikudag, til að skila inn umsögn. Að sögn Egils hefur hreppsnefnin ekki myndað sér skoðun á málinu.
Í tilkynningu frá umverfis- og auðlindaráðuneytinu vegna friðlýsingarinnar kemur fram að sveitarfélögum á svæðinu hafi verið veittur frestur til 3. október síðastliðins til að skila inn athugasemdum. „Við vorum búin að tilkynna að við yrðum með hreppsnefndarfund þann 11. október þar sem þetta yrði tekið fyrir. Ég vissi ekki að það lægi svona mikið á. Það kom mér á óvart að mönnum skyldi liggja svona mikið á núna. Ég hélt að það væri verið að bíða eftir umsögnum um þetta. Vika til og frá skiptir engu máli, þetta er að vera í umræðunni í fjölda ára,“ segir Egill í samtali við mbl.is.
Átta umsagnir bárust ráðuneytinu vegna málsins. Frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Bláskógabyggð, Hrunamannahreppi, Vini Þjórsárvera, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Landvernd og Fuglavernd.
Enginn þeirra sem veitti umsögn um málið lagðist gegn friðlýsingunni en ábendingar komu m.a. fram um fyrirhuguð mörk svæðisins, þ.e. að svæðið ætti að vera stærra, segir í tilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
Egill segir að núverandi hreppsnefnd hafi enn ekki myndað sér skoðun á stækkun friðlandsins, en fyrri hreppsnefnd var hlynnt stækkun þess. Nefndin mun fara yfir málið á fundinum á miðvikdaginn og í kjölfarið senda ráðuneytinu athugasemdir, jafnvel þó það sé orðið of seint.