Flutningabíll valt með grísi um borð

Frá slysstaðnum.
Frá slysstaðnum. Ljósmynd/Motiv/Jón Svavarsson

Gripaflutningabíll með 114 grísi um borð valt á hliðina við afleggjarann til Þorlákshafnar. Dýrin eru í misjöfnu ásigkomulagi eftir slysið. Ökumaðurinn komst sjálfur út úr bílnum og eru meiðsli hans minniháttar.

Lögreglan er á vettvangi ásamt slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu og dýralækni frá Matvælastofnun.

Að sögn slökkviliðsins valt bíllinn út fyrir veg og lentu dýrin utan vegar.

Annar flutningabíll er kominn á staðinn til að sækja þau dýr sem eru á fæti.

Tilkynnt var um slysið klukkan 14.40 og var slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu komið á staðinn klukkan rétt rúmlega 15.

Uppfært klukkan 17:33:

Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri hjá brunavörnum Árnessýslu, segir í samtali við mbl.is að um 10 dýr hafi verið dauð þegar komið var á vettvang. Síðan hafi þurft að aflífa níu dýr, en það var gert af dýralækni undir stjórn lögreglu. Segir hann að búast megi við því að aflífa þurfi fleiri dýr, en þau sem ekki var hægt að flytja á fæti eða voru brotin eða lömuð eftir áreksturinn voru aflífuð.

Í árekstrinum opnaðist efri hlutinn á flutningapallinum, en dýr voru bæði á efri og neðri hæð hans. Segir Pétur að búið sé að koma dýrum sem voru á efri pallinum í burtu og að unnið sé að því að koma þeim sem voru á neðri pallinum á brott. Það sé þó heilmikil vinna, enda séu dýrin þung og hægt gangi að ferma þau á annan bíl. Þegar búið verður að koma öllum dýrum í burtu verður bílnum komið upp á veg og fluttur í burtu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka