Hreppsnefnd Ásahrepps íhugar að leggja fram stjórnsýslukæru á hendur umhverfisráðuneytinu vegna stækkunar friðlands í Þjórsárverum. Þetta var samþykkt samhljóða á hreppsnefndarfundi Ásahrepps í dag.
„Hreppsnefnd Ásahrepps harmar þau vinnubrögð sem viðhöfð eru bæði af hendi umhverfisráðherra sem og Umhverfisstofnunar og mun íhuga að leggja fram stjórnsýslukæru á hendur umhverfisráðuneytinu,“ segir í umsögn um stækkun friðlands í Þjórsárverum.
Hreppnefndin ítrekar að ekki standi til að framkvæma eða raska umræddu svæði á nokkurn hátt enda yrði það ekki gert nema í samráði við landeiganda sem er ríkið. „Þrátt fyrir að málsmeðferð hafi verið meingölluð og erfitt að afla gagna og upplýsinga um málið þá er hreppsnefnd fylgjandi stækkun friðlandsins,“ segir jafnframt. Í þessu samhengi er bent á að óvissa ríkir í stjórnmálum þar sem óvíst er að verkefninu verði tryggt fjármagn á næstu fjárlögum. Þar af leiðandi telur hreppsnefndin „ekki heppilegt fyrir svo stórt verkefni að það sé keyrt í gegn af starfandi ráðherra án umboðs.“
„Hreppsnefnd lítur svo á að þótt ákvörðun um friðlýsingu Þjórsárvera sé byggð á náttúruverndaráætlun sem samþykkt var á Alþingi árið 2010 hefði það verið í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að viðhafa málsmeðferð á grundvelli gildandi náttúruverndarlaga og gefa málinu þann tíma sem þarf til þess að ná sem bestri sátt um friðlýsinguna.“ Þetta kemur fram í fundargerðinni.
Í umsögninni er jafnframt bent á að takmarkaðar upplýsingar liggi fyrir um starfsemi núverandi Þjórsárvera. Þá vanti „mikið upp á að núverandi Þjórsárverum sé sýndur sá sómi sem þau eiga skilið. Lítið sem ekkert utanumhald er um Þjórsárver í núverandi mynd og nokkuð ljóst að það fyrirkomulag sem ríkir er ekki að skila sér til svæðisins, hvort sem horft er til uppbyggingar, merkinga eða vörslu,“ segir jafnframt.
Hlutaðeigandi sveitarfélögum var veittur þriggja mánaða frestur, með bréfum frá 3. júlí 2017, til að gera athugasemdir við friðlýsingarskilmála um stækkað friðland en samhliða því fór málið í almennt umsagnarferli á vef ráðuneytisins. 3. október óskaði sveitarstjóri Ásahrepps formlega eftir fresti til að skila inn umsögn um tillögu að stækkun friðlands í Þjórsárverum til 11. október sama dag og hreppsnefndarfundur yrði haldinn. Svar barst samdægurs þar sem ráðuneytið taldi að ekki væru forsendur fyrir því að veita frest. Þetta kemur fram í fundargerðinni.