Nýtt fríblað, Mannlíf, kemur út í fyrsta skipti á morgun en um er að ræða samstarfsverkefni Kjarnans og Birtings. Blaðinu verður dreift í áttatíu þúsund eintökum á höfuðborgarsvæðinu og verður það sambærilegt helgarblöðum stærri dagblaðanna að stærð, eða um áttatíu blaðsíður.
„Þetta er tilraunarstarfsemi hjá okkur eins og staðan er í dag. Samtarfsverkefni tveggja útgáfufyrirtækja sem virkar þannig að við vinnum fyrri hluta blaðsins sem verður fréttatengdur með fréttaskýringum, fréttum og viðtölum. Í aftari hluta blaðsins verður Birtingur síðan með efni frá Gestgjafanum, Hús og híbýlum og Vikunni. Þetta er bara fyrsta skrefið í þessu samstarfi og áframhaldið velur á því hvernig þetta gengur og hvernig viðtökurnar verða,“ segir Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans.
Sníða sér stakk eftir vexti
Aðspurður segir Þórður að ekki standi til að fjölga starfsfólki strax. „Þetta er tilraunaverkefni, við vinnum þetta á þeirri ritstjórn sem við erum með núna og verktökum. Það gekk upp í þetta skiptið en það er þannig með flest sem við gerum að við sníðum okkur stakk eftir vexti og bætum frekar við okkur eftir á frekar en að hlaða upp fólki áður en við förum almennilega af stað.“
Kjarninn hefur frá því í vor verið í samstarfi við Hringbraut um vikulegan fréttaskýringarþátt sem Þórður stýrir sjálfur. „Sjónvarpsþátturinn hefur gengið vel og þar eru allir hlutaðeigandi ánægðir og þátturinn hefur fengið fínt áhorf og góðar móttökur. Við höfum skilgreint okkur í töluverðan tíma sem efnisframleiðendur og erum tilbúnir að fara í samstarf með öðrum miðlum varðandi miðlun efnis. Það er kannski ekki formattið sem skiptir öllu máli heldur að efnið sé Kjarna-efni.“
Aðspurður um hvort hann sjái fyrir sér að fjölmiðlamarkaður komi til með að þróast í átt að auknu samstarfi minni fjölmiðla segist Þórður ekki viss um það. „Ég bara veit það ekki. Samstarfið við Birting er einvörðungu um þetta verkefni og það eina sem við höfum rætt um. Það sama gildir um Hringbraut. En við erum opnir fyrir því að vinna með öðrum ef það hentar báðum aðilum og báðir geta séð sér einhvern hag í því en eins og staðan er í dag er þetta það eina sem er á borðinu. Íslenski markaðurinn er náttúrlega vægt til orða tekið mjög sérstakur. Við erum með mjög stóra aðila á einkamarkaði sem eru mjög vel fjármagnaðir. Svo erum við með risavaxkið gímald sem er ríkisrekið og tekur þátt á auglýsingamarkaði. Það er mjög erfitt að fóta sig sem lítið fjölmiðlafyrirtæki á svona markaði og það er eðlilegt að litlu aðilarnir reyni að vinna saman þegar við á ef báðir geta haft hag af.“