Stofnendur svissneska loftslagsrannsóknafyrirtækisins Climeworks, þeir Jan Wurzbacher og Christoph Gebald, kynntu nýja og byltingarkennda tækni á blaðamannafundi í Hellisheiðarvirkjun í gær.
Um er að ræða eins konar koldíoxíðgleyp sem dregur koltvíoxíð úr andrúmsloftinu sem síðan má selja í ýmsan iðnað eða dæla beint ofan í jörðina þar sem er að finna basalt-lög, líkt og víða á Íslandi, að því er fram kemur í umfjöllun um þessa starfsemi í Morgunblaðinu í dag.
„Allar rannsóknir benda til þess að við náum ekki markmiðum Parísarsamkomulagsins, þ.e. að stöðva aukningu í útblæstri gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og ná að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C með því einu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við verðum líka að vinna að því að hreinsa andrúmsloftið,“ segir Christoph Gebald.