Búið er að slátra öllum grísunum sem komust án alvarlegra áverka frá því þegar flutningabíll með þá innanborðs valt á vegamótum Þrengsla og Suðurlandsvegar í gærdag. Grísunum var slátrað í dag eftir að hafa fengið aðhlynningu og hvíld og verður langmestur hluti kjötsins væntanlega nýttur til manneldis, líkt og til stóð. Þetta segir Þóra J. Jónsdóttir, dýralæknir dýravelferðar hjá Matvælastofnun, sem var á vettvangi í gær. Hún er búin að fá skýrslu frá sláturhúsinu vegna málsins.
Alls voru 114 grísir um borð í flutningabílnum, en 30 dýr annað hvort drápust á staðnum eða voru aflífuð vegna áverka og var þeim fargað. Eitt dýr til viðbótar var svo aflífað strax við komuna í sláturhús og því einnig fargað.
„Þeir sem virtust vera í þokkalegu ástandi voru fluttir á tveimur bílum, og héldu áfram á þeirri vegferð sem þeir voru á, á leið í sláturhús. Þar var tekið á móti þeim af dýralækni og þeir skoðaðir aftur í rólegheitum hver og einn,“ segir Þóra, en þrír grísir voru í kjölfarið færðir í sjúkrastíur þar sem þeir fengu frið fá hinum.
Hún segir dýrin klárlega hafa orðið stressuð í kjölfar slyssins í gær en þau hafi fengið að hvíla sig og því miklar líkur á því að þau hafi náð jafnvægi fyrir slátrun. „Grísirnir fengu hvíld í gær, vatn og ró. Þannig lagað var því tekið vel á móti þeim, þrátt fyrir það stutta líf sem þeir áttu eftir.“
Kjötið ætti því að vera hæft til manneldis. Hefðu dýrin hins vegar farið beint í slátrun í kjölfar slyssins hefðu stressáhrifin væntanlega verið mun meiri og kjötið varla nothæft.
„Það var vissulega meira mar á þessum gripum heldur en við sjáum í venjulegum flutningum. Það verður væntanlega bara skorið frá. Ég held ekki að neinu þeirra dýra sem slátrað var í dag hafi verið hent að öllu leyti. Einhverjir líkamspartar gætu þó hafa verið dæmdir óhæfir til manneldis.“
Þóra segir öll þau dýr sem hafi verið á gráu svæði varðandi meiðsl hafi verið aflífuð á slysstaðnum í gær. Dýrin hafi verið látin njóta vafans. „Þó það hafi bara verið fleiður á nefi, þá var tekin ákvörðun um að aflífa þau frekar, af því þessi örlög biðu þeirra hvort sem var. Velferð dýranna var eingöngu höfð að leiðarljósi þegar ákvörðun var tekin um hvort ætti að aflífa dýrin á staðnum.“
Þóra segir það hafa verið einróma álit allra, og samþykkt af öllum á staðnum; sláturleyfishafa, fyrrverandi eiganda grísanna og dýralækna, að hafa velferðina að leiðarljósi. „Sem dýralæknir dýravelferðar þá er svo ánægð með að það var enginn þrýstingur á að pressa einhver dýr í gegn. Það voru allir mjög sammála.“ Þóra segir yfirvegað og gott samstarf hafa átt sér stað á milli allra aðila á vettvangi.
Hún segir grísina einnig hafa staðið sig ótrúlega vel miðað við dýr sem aldrei hafa verið úti. „Það var auðvitað mikil hræðsla í hópnum, en mér fannst þessi dýr standa sig ótrúlega vel. Sum voru farin skoða mosann og róta í mölinni og reyndu að aðlaga sig aðstæðum. Það sem ég sá líka, og mér fannst mjög jákvætt, voru jákvæð viðbrögð dýranna þegar dýraeigandinn kom á vettvang,“ segir Þóra, en líkt og áður sagði kom eigandinn á vettvang og aðstoðaði við að koma grísunum yfir í aðra flutningabíla. „Þeir brugðust greinilega mjög jákvætt við hennar nærveru og hennar rödd. Ég sá dýr sem lágu og hnipruðu sig ofan í sprungu sem stóðu upp þegar hún fór að spjalla við þau. Það var því gott að hún mætti á staðinn, þó það hafi örugglega verið henni mjög erfitt, enda hræðileg aðkoma við svona slys.“