Mátturinn eða dýrðin?

Yfir sjö tonn af sprengiefni vorunotuð 13. mars árið 2003 …
Yfir sjö tonn af sprengiefni vorunotuð 13. mars árið 2003 til að sprengja í gljúfrunum fyrir Kárahnjúkastíflu. mbl.is/RAX

Eft­ir­spurn eft­ir raf­orku á Íslandi er meiri en fram­boðið. Raf­magnið sem hér er fram­leitt er vist­vænt og verð þess hag­stætt, þótt það sé ekki leng­ur það ódýr­asta í heimi. Stór iðnfyr­ir­tæki ásæl­ast af þess­um sök­um ork­una og í aukn­um mæli þekk­ing­ar­fyr­ir­tæki. Nú er svo komið að orku­fram­leiðend­ur þurfa að vísa frá áhuga­söm­um kaup­end­um, m.a. þeim sem vilja setja hér á fót gagna­ver. „Við höf­um oft þurft að segja nei við slík­um verk­efn­um,“ seg­ir Ásgeir Mar­geirs­son, for­stjóri HS Orku. „Þetta er bara raun­veru­leik­inn. Þetta er at­vinnu­grein sem er að reyna að vaxa á Íslandi, er með hreina starf­semi og vill hreina orku. En hún er bara ekki til.“

Upp­sprettu hreinu ork­unn­ar, sem verður sí­fellt dýr­mæt­ari sölu­vara, er að finna í ís­lenskri nátt­úru. Afl henn­ar er margþætt. „Hún er viðkvæm, hrika­leg, sér­stök og fjöl­breyti­leg,“ eins og seg­ir í fræðslu­hefti sem gefið var út á degi ís­lenskr­ar nátt­úru árið 2013. Allt þetta ger­ir hana eft­ir­sótta til úti­vist­ar og ferðamennsku sem tek­in er að blómstra hér á landi sem aldrei fyrr. Að sama skapi ber lög­um sam­kvæmt að vernda hana og „tryggja eft­ir föng­um þróun [henn­ar] á eig­in for­send­um“, eins og það er orðað í ný­leg­um lög­um um nátt­úru­vernd.

Ólík­ir kraft­ar tog­ast því á um þessa miklu auðlind Íslands. Styrk­ur þeirra allra hef­ur vaxið jafnt og þétt und­an­far­in ár og því „þurf­um við skýra sýn og for­gangs­röðun,“ seg­ir Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son, fram­kvæmda­stjóri Land­vernd­ar.

„Sam­fé­lagið þarf að svara því hvort það vilji meiri raf­orku og frek­ari virkj­an­ir,“ seg­ir Hörður Arn­ar­son, for­stjóri Lands­virkj­un­ar. „Og ef við vilj­um nýta ork­una þá hef­ur það áhrif á um­hverfið, rétt eins og þegar við nýt­um nátt­úru und­ir ferðamenn og land­búnað svo dæmi séu tek­in.“

Í dag hef­ur göngu sína í Morg­un­blaðinu og á mbl.is greina­flokk­ur­inn Mátt­ur­inn eða dýrðin þar sem fjallað er um ólík sjón­ar­mið varðandi nýt­ingu nátt­úr­unn­ar, einn­ar mestu auðlind­ar Íslands. 

Um 80% ork­unn­ar til nokk­urra fyr­ir­tækja

Hvergi í heim­in­um er raf­orku­vinnsla á hvern íbúa meiri en á Íslandi. Skýr­ing­una er að finna í upp­bygg­ingu orku­freks iðnaðar síðustu ár. Risa­stórt stökk var stigið í orku­fram­leiðslunni er lang­stærsta afl­stöð lands­ins, Kára­hnjúka­virkj­un, var tek­in í notk­un fyr­ir rétt­um ára­tug.

mbl.is/​Krist­inn Garðars­son

Með gang­setn­ingu Kára­hnjúka­virkj­un­ar jókst sam­an­lögð afl­geta ís­lenskra virkj­ana um tæp 40%. Hún fram­leiðir ár­lega um tvisvar sinn­um meira raf­magn en Búr­fell, næst­stærsta vatns­afls­virkj­un­in. Mik­ill meiri­hluti ork­unn­ar eða um 83-85% er enn í dag seld­ur einu fyr­ir­tæki, ál­verk­smiðjunni Fjarðaáli á Reyðarf­irði.

Árið 2000 notuðu stóriðju­fyr­ir­tæki á Íslandi um 60% ork­unn­ar. Árið 2008, eft­ir að Kára­hnjúka­virkj­un hafði verið tek­in í gagnið og Fjarðaál var komið til sög­unn­ar, var hlut­fallið orðið 75%.

Og hlut­fallið hef­ur haldið áfram að aukast. Sé litið til orku­fram­leiðslunn­ar á land­inu í fyrra (18.549 gíga­vött, GWh) fóru rétt rúm 77% (14.334 GWh) henn­ar til sjö fyr­ir­tækja, þar af sex málm­verk­smiðja og eins gagna­vers. Sjö­unda málm­verk­smiðjan, kís­il­ver PCC á Bakka, mun svo inn­an skamms bæt­ast í hóp­inn. Á næsta ári er því áætlað að stór­not­end­ur, sem þá verða orðnir níu, noti tæp­lega 78% allr­ar þeirr­ar raf­orku sem fram­leidd er á Íslandi.

Fleiri stóriðju­verk­efni voru og eru enn í far­vatn­inu. Þau eru af þeirri stærðargráðu að virkja þarf sér­stak­lega til orku­öfl­un­ar­inn­ar. Nokk­ur óvissa rík­ir þó um fram­hald þeirra.

Óvissa vegna kís­il­vera

Ljóst er að ekk­ert verður af fyr­ir­huguðu sól­arkís­il­veri Silicor Mater­ials á Grund­ar­tanga, að minnsta kosti í bráð. Fé­lagið Thorsil stefn­ir enn að bygg­ingu eins stærsta kís­il­vers heims í Helgu­vík en taf­ir hafa orðið á því verk­efni, m.a. vegna erfiðleika við fjár­mögn­un. Sam­an­lögð aflþörf þess­ara verk­efna var 167 mega­vött (MW). Til sam­an­b­urðar er afl Sigöldu­stöðvar Lands­virkj­un­ar 150 MW og er hún í hópi stærstu virkj­ana lands­ins.

Að auki hef­ur rekst­ur kís­il­vers United Silicon í Helgu­vík gengið mjög brös­ug­lega og í haust var slökkt á eina málmbræðslu­ofni þess. Þá höfðu íbú­ar í ná­grenni verk­smiðjunn­ar mánuðum sam­an kvartað und­an óþæg­ind­um og lykt­ar­meng­un. Á næstu vik­um mun skýr­ast hvort hún verður gang­sett á ný og þá hvenær.

Í stjórnstöð Landsnets er fylgst með orkuframleiðslunni, dreifingunni og notkuninni. …
Í stjórn­stöð Landsnets er fylgst með orku­fram­leiðslunni, dreif­ing­unni og notk­un­inni. Upp­sett afl virkj­ana á Íslandi er 2.724 MW. Raf­orku­fram­leiðslan var 18.549 gíga­vatts­stund­ir á síðasta ári. mbl.is/​Golli

Allt þetta hef­ur áhrif á framtíðaráform orku­fyr­ir­tækj­anna en mis­mik­il þó.

Staða United Silicon og Silicor Mater­ials hef­ur óveru­leg bein áhrif á HS Orku þar sem fyr­ir­tækið sel­ur enga raf­orku til United Silicon og hafði aðeins gert vilja­yf­ir­lýs­ingu um af­hend­ingu fimm mega­vatta til sól­arkís­il­vers­ins en áformað var að Orka nátt­úr­unn­ar myndi út­vega raf­orku til starf­semi þess að mestu leyti. „En hins veg­ar get­ur þetta haft ein­hver áhrif á markaðinn, ef orka annarra sem átti að fara í þessi verk­efni er nú á lausu,“ seg­ir for­stjóri HS Orku. Einnig gæti þessi staða haft áhrif á önn­ur verk­efni á þessu sviði. „Það er ekki annað að sjá en að PCC haldi ótrauðir áfram með sína upp­bygg­ingu á Húsa­vík en menn spyrja sig, skilj­an­lega, hvort þetta muni hafa áhrif á áform Thorsil um að reisa kís­il­ver í Helgu­vík. Það á enn eft­ir að koma í ljós. Auðvitað skipt­ir máli hvort United Silicon held­ur áfram starf­semi eða ekki. Það hef­ur áhrif á fram­boð þeirr­ar orku sem er á markaði.“

Lands­virkj­un gerði raf­orku­samn­ing við United Silicon um af­hend­ingu raf­orku fyr­ir rekst­ur fyrsta ofns­ins. Að því var stefnt að ofn­arn­ir yrðu fjór­ir og hafði starfs­leyfi þegar verið veitt fyr­ir tveim­ur. Lands­virkj­un hafði hvorki samið um né gefið vil­yrði fyr­ir frek­ari orku­af­hend­ingu.

For­stjóri Lands­virkj­un­ar vill ekki spá um framtíð United Silicon. „Ég hef nú enn trú á því að hægt verði að ná tök­um á rekstr­in­um. Þessi rekst­ur er þekkt­ur víða um heim og þessi vand­ræði komu á óvart. Víða er­lend­is eru kís­il­ver rek­in í ná­grenni við byggð og slíkt á að geta gengið. Eft­ir því sem ég best veit er þetta ein­stakt mál.“

HS Orka hafði gert raf­orku­sölu­samn­ing við Thorsil um af­hend­ingu á 32 MW, með mögu­leika á 44 MW. Hann rann út snemm­sum­ars. Sú orka átti að koma frá Reykja­nes­virkj­un og Brú­ar­virkj­un, lít­illi vatns­afls­virkj­un sem fyr­ir­tækið er nú að hefja bygg­ingu á.

Lands­virkj­un hafði einnig samið við Thorsil um af­hend­ingu á 55 MW. „Og við erum enn í sam­starfi við þá,“ seg­ir Hörður. „Það verk­efni hef­ur ekki gengið sam­kvæmt áætl­un og það liggja enn ekki fyr­ir end­an­leg­ar áætlan­ir um hvort og hvenær þeir ná að ljúka því. Það er mik­il­vægt að þessi verk­smiðja verði reist í sátt við sam­fé­lagið og það er verk­efni Thorsil að tryggja það.“

Notk­un­in gæti marg­fald­ast

Í nýrri raf­orku­spá Orku­stofn­un­ar er gert ráð fyr­ir að raf­orku­notk­un auk­ist um 10% hér á landi til árs­ins 2020 og um 14% til árs­ins 2030. Í þeirri spá er ekki tekið til­lit til nýrra stór­not­enda. Því ger­ir spá­in aðeins ráð fyr­ir litl­um vexti stóriðjunn­ar og því ljóst að ef kís­il­ver Thorsil verður að veru­leika og fyr­ir­huguð stækk­un United Silicon geng­ur eft­ir, svo dæmi séu tek­in, verður orkuþörf­in mun meiri.

mbl.is/​Krist­inn Garðars­son

Al­veg óháð nýj­um stór­not­end­um mun því aflþörf­in aukast um 24 MW milli ár­anna 2018 og 2020 og um 184 MW til árs­ins 2030. „Það þýðir að á fjög­urra til fimm ára fresti þarf nýja 50 mega­vatta virkj­un að því gefnu að all­ir not­end­ur sem eru núna haldi áfram,“ seg­ir Hörður, for­stjóri Lands­virkj­un­ar.

Hann seg­ir fólk oft van­meta það sem sam­fé­lagið þurfi af orku. Hin aukna al­menna orku­notk­un skýrist m.a. af fólks­fjölg­un og hag­vexti. Þá eru orku­skipti þegar far­in að eiga sér stað í land­inu. Fyr­ir­tæki, s.s. fiski­mjöls­verk­smiðjur, eru smám sam­an að hætta notk­un olíu og raf­bíl­ar eru sí­fellt að ryðja sér meira til rúms. „Allt krefst þetta auk­inn­ar orku,“ seg­ir Hörður.

Þótt al­menn­ur orku­skort­ur sé ekki enn vanda­mál, nema á ákveðnum landsvæðum vegna erfiðra aðstæðna við dreif­ingu, er nú þegar orðið nokkuð þröngt um ork­una, eins og Guðni A. Jó­hann­es­son orku­mála­stjóri orðar það. Leiðirn­ar að hinu gullna jafn­vægi eru í raun tvær: Að auka fram­leiðslu til að mæta eft­ir­spurn eða finna leiðir til að draga úr henni. Ef fyrri kost­ur­inn er val­inn þarf að fara í frek­ari virkj­un­ar­fram­kvæmd­ir á tím­um þegar nátt­úru- og um­hverf­is­vernd hef­ur fengið byr und­ir báða vængi og ferðaþjón­ust­an, sem bygg­ist að miklu leyti á aðdrátt­ar­afli hinn­ar óspilltu nátt­úru, er orðin ein stærsta at­vinnu­grein lands­ins.

Síðari kost­ur­inn fel­ur í sér að draga úr orku­notk­un til framtíðar og deila hinni miklu raf­orku sem aflað er hér á landi nú þegar með öðrum hætti.

Slíkt verður ekki gert með einu penn­astriki.

Stór­not­end­urn­ir eru all­ir með lang­tíma­samn­inga og ein­hliða aðgang­ur að breyt­ing­um á þeim er laga­lega ekki fyr­ir hendi, að sögn for­stjóra Lands­virkj­un­ar. „Auðvitað get­ur það gerst einn dag­inn að ein­hver stór­not­andi hætti starf­semi. Það er eðli allra verk­smiðja að þær hætta ein­hvern tím­ann rekstri. En eft­ir því sem ég best veit geng­ur starf­semi okk­ar stór­not­enda vel og full­ur hug­ur í þeim að starfa hér áfram.“

Raf­orku­kerfið botn­laus hít

Rit­höf­und­ur­inn Andri Snær Magna­son, sem hef­ur í um tvo ára­tugi bar­ist fyr­ir nátt­úru­vernd, minn­ir á að stöðug og vax­andi eft­ir­spurn eft­ir raf­magni sé ein birt­ing­ar­mynd stóriðju­stefn­unn­ar sem lengi hef­ur verið við lýði á Íslandi. „Raf­orku­kerfið verður eins kon­ar hít þar sem þarf enda­laust nýj­ar virkj­an­ir,“ seg­ir Andri. „Einkaaðilar fara af stað og vilja virkja ár í sveit­un­um eins og er að sýna sig við Svar­tá, þar sem er fjöl­skrúðugt og ein­stakt fugla­líf, og Hvalá á Strönd­um, þar sem víðern­in og foss­arn­ir eru ein­stök.“

Jarðvarmavirkjunin á Hellisheiði var gangsett árið 2006. Rekstur hennar hefur …
Jarðvarma­virkj­un­in á Hell­is­heiði var gang­sett árið 2006. Rekst­ur henn­ar hef­ur ekki gengið áfalla­laust og til ým­issa ráðstaf­ana þurft að grípa. Virkj­un­in er rétt við höfuðborg­ar­svæðið og heiðin hef­ur lengi verið vin­sæl til úti­vist­ar. mbl.is/​Golli

Hann bend­ir á að afl ís­lenskra virkj­ana sé um 2.000 mega­vött. Á sama tíma og örfá fyr­ir­tæki noti um 80% af ork­unni sé svo talað um orku­skort. „Hvernig get­ur það verið, í landi þar sem svo mikið raf­magn er fram­leitt, að ákveðnir lands­hlut­ar hafi mætt af­gangi?“ spyr hann og vís­ar til umræðunn­ar um raf­orku­ör­yggi Vest­fjarða og fleiri svæða. „Af hverju er ekki löngu búið að tryggja það að all­ir hafi jafn­an aðgang að raf­magni? Get­ur verið að stóriðjan hafi blindað menn, að þeim finn­ist eng­in stór­mennska í því að byggja tryggt orku­kerfi fyr­ir nokk­ur þúsund manns?“

Orku­fyr­ir­tæk­in, sem flest eru í eigu rík­is og sveit­ar­fé­laga, ættu að mati Andra að vera það arðbær að þau geti staðið und­ir kostnaði við upp­bygg­ingu innviða og vel­ferðarþjón­ust­unn­ar. Hann seg­ir að ein­hverju leyti gott og gilt að taka þátt í stóriðju heims­ins en ef hún fái bróðurpart­inn af raf­orkunni og orku­fyr­ir­tæk­in skili litl­um hagnaði „höf­um við hugsað þetta reikn­ings­dæmi al­veg band­vit­laust“.

Á þess­ari veg­ferð hafi margt farið úr­skeiðis. Síðustu miss­eri hafa dæm­in verið mörg og slá­andi: „Hell­is­heiðar­virkj­un geng­ur því miður illa, við vit­um ekki hvort hún verður baggi á okk­ur í framtíðinni eða hvort hægt verður að halda henni gang­andi. Álverið og kís­il­verið í Helgu­vík eru strand, millj­arðarn­ir sem sett­ir eru í jarðgöng og raflín­ur fyr­ir kís­il­verið á Bakka eru enn eitt dæmið og síðan hef­ur komið á dag­inn að menn ætla að brenna 400 þúsund tonn­um af kol­um til að keyra þess­ar verk­smiðjur.“

„Kerf­is­bund­inn óheiðarleiki“

Andri Snær seg­ir að því miður megi auk þess alltof oft sjá það sem kalla megi „kerf­is­bund­inn óheiðarleika“. Hann fel­ist í því að fólki sé tal­in trú um að verk­smiðjan verði lít­il, eða virkj­un­in verði aðeins ein og kalli ekki á frek­ari fram­kvæmd­ir. „Verk­smiðja er sögð eiga að fram­leiða 90 þúsund tonn en ef maður kynn­ir sér málið þarf hún að fram­leiða 350 þúsund tonn til að vera sam­keppn­is­fær. Ef maður vill þá ræða heild­ar­mynd­ina er maður sakaður um sam­særis­kenn­ing­ar. Þetta er eins og ein­hver seg­ist ætla að kaupa sér leigu­bíl en það verði bara eitt sæti í hon­um. Í því til­felli er öll­um aug­ljós vit­leys­an en menn virðast því miður treysta á blindu al­menn­ings þegar kem­ur að mega­vött­um, raflín­um og verk­smiðju­stærðum.“

mbl.is/​Krist­inn Garðars­son

Þessi leik­ur hafi t.d. verið leik­inn varðandi kís­il­ver­in. Orku­fyr­ir­tæk­in byrja á því að tryggja raf­magn á einn ofn þegar al­veg er ljóst að verk­smiðjan er hönnuð fyr­ir fjóra. Ork­an er til á þenn­an eina ofn en þegar verk­smiðjan stækk­ar þarf að virkja til að út­vega viðbótarraf­magnið. Andri gríp­ur til annarr­ar mynd­lík­ing­ar: „Þetta er eins og verið sé að byggja hús við hliðina á þínu sem kynnt er sem tveggja hæða en það eru tíu hæðir merkt­ar á dyra­bjöll­un­um og á lyft­unni.“

Val hvort stóriðju­ver­um verði fjölgað

For­stjóri Lands­virkj­un­ar seg­ir að til að mæta orkuþörf næstu fimm til tíu ára sé það ekki val­kost­ur að fara út úr þeim raf­orku­samn­ing­um við stór­not­end­ur sem nú eru í gildi. Hins veg­ar sé það val hvort stóriðju­ver­um verði fjölgað í framtíðinni. Nú stefni í að kís­il­verk­smiðjurn­ar verði þrjár inn­an skamms; Elkem á Grund­ar­tanga, sem er af þess­um toga, United Silicon og svo PCC á Bakka. „Þá erum við kom­in með nokkuð öfl­ug­an iðnað í þess­um geira sem von­andi geng­ur vel og verður far­sæll.“

Að mati fram­kvæmda­stjóra Land­vernd­ar hef­ur orðið kúvend­ing í umræðunni um stóriðju á Íslandi í kjöl­far vand­ræða við rekst­ur kís­il­vers United Silicon. „Eitt mál, þar sem heilsu fólks er ógnað, get­ur gjör­breytt af­stöðu fólks­ins.“

Hörður seg­ist sam­mála því að í augna­blik­inu sé auk­in umræða um að staldra við í frek­ari upp­bygg­ingu stóriðju. „Og það er mjög mik­il­vægt að hlusta á sam­fé­lagið. Það er ljóst að öll upp­bygg­ing stóriðju á Íslandi hef­ur fyrst og fremst verið vegna ákalls sam­fé­lags­ins, sér­stak­lega nærsam­fé­lags­ins.“

Nefn­ir hann sem dæmi Aust­ur­land fyr­ir nokkr­um árum, svo Helgu­vík í Reykja­nes­bæ og Bakka á Húsa­vík. „Þannig að ef sam­fé­lagið er með aðra sýn til framtíðar, þá lag­ar orku­geir­inn sig að því.“

Guðmund­ur Ingi seg­ir margt hafa breyst í nátt­úru­vernd­ar- og um­hverf­is­mál­um frá því deil­an um Kára­hnjúka stóð sem hæst. Það staðfesti meðal ann­ars skoðanakann­an­ir á viðhorf­um fólks til ál­vera. Um 60% aðspurðra vilja nú þjóðgarð á miðhá­lend­inu, svo annað dæmi sé tekið.

Frá því túr­bín­ur Kára­hnjúka­virkj­un­ar voru ræst­ar fyr­ir tíu árum hef­ur margt áunn­ist í nátt­úru­vernd­ar­mál­um; nýir þjóðgarðar hafa verið stofnaðir og friðlýst svæði stækkuð. „Það er til­finn­ing mín að við séum að þokast í rétta átt,“ seg­ir Guðmund­ur Ingi. Þessi breytta sýn sam­fé­lags­ins kall­ar að hans mati á nýja stefnu stjórn­valda í mála­flokkn­um.

For­stjór­ar orku­fyr­ir­tækj­anna minna á að búa þurfi í hag­inn fyr­ir framtíðina og horfa langt fram í tím­ann. „Við þurf­um að vita í dag hvaðan raf­magnið á að koma sem við ætl­um að nota árið 2030,“ seg­ir Ásgeir. „Raf­magnið þarf ein­hvers staðar að verða til, það verður ekki til í snúr­un­um.“

HS Orka stefn­ir á að fram­leiða þetta raf­magn í Hvalár­virkj­un sem reist yrði á víðern­um Vest­fjarða. Lands­virkj­un hyggst afla þess með Hvamms­virkj­un í blóm­legri byggð við neðan­verða Þjórsá.

Um þessi áform og fleiri fyr­ir­hugaðar virkj­un­ar­fram­kvæmd­ir verður fjallað ít­ar­lega í Morg­un­blaðinu og á mbl.is næstu daga.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert