Hreinsunarstarfi á vettvangi þar sem flutningabíll með 114 sláturgrísi innaborðs valt á hliðina við vegamót Þrengsla og Suðurlandsvegar í gær, lauk ekki fyrr en um klukkan níu í gærvöldi, sex tímum eftir að slysið átti sér stað.
Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri hjá Brunvörnum Árnessýslu, segir í samtali við mbl.is að hreinsunarstarfið hafi gengið vel, en eðli síns vegna hafi verkefnið verið tímafrekt. Ökumaður bílsins komst út úr bílnum af sjálfdáðum og voru meiðsli hans minniháttar.
„Þetta var frekar afslappaður vettvangur, en var alls ekki skemmtilegur vettvangur að vinna í. Þó svo að þetta hafi verið dýr sem hafi átt að slátra til manneldis þá vill enginn sjá skepnur þjást. Þetta snérist að miklu leyti um að lina þjáningar og koma hlutunum í réttan farveg,“ segir Pétur.
Grísirnir voru, líkt og fram hefur komið, á leið til slátrunar á vegum Stjörnugrís og starfsmenn frá fyrirtækinu komu á vettvang og aðstoðu lögreglu og slökkvilið við hreinsunarstarfið.
„Þeir komu frá Stjörnugrís og stýrðu verkefninu við að flytja lífdýrin. Þeir sáu líka um að fjarlægja þau dýr sem drápust. Það gekk bara vel, en starfi á vettvangi lauk ekki fyrr en klukkan níu í gærkvöldi. Það komu stórir bílar til að hífa flutningabílinn. Þetta var allt saman heilmikið verk.“
Pétur segir að 24 dýr hafi drepist í það heila. Tíu, tólf dýr hafi drepist strax og svo hafi þurft að aflífa álíka mikinn fjölda dýrra vegna áverka sem þau hlutu í slysinu. „Dýralæknar fóru um ákváðu hvaða dýr voru skotin, en það var lögregla sem sá um að aflífa dýrin. Þau dýr sem voru aflífuð voru annað hvort brotin eða höfðu hlotið lömun.“
Hann segir fleiri dýr þó hafa verið mjög slösuð og sjokkeruð, þó þau hafi hvorki verið brotin ne lömuð, og því hafði þau verið nokkuð róleg á staðnum. Það auðveldaði hreinsunarstarfið að grísirnir voru flestir þétt saman í hrúgu og náðu ekki að dreifa sér um hraunið. „Þeir voru flestir þétt upp við bílinn. Um það bil helmingur af dýrunum voru föst inni á neðri hæð bílsins. Það var eitt svín sem fór nokkuð langt út í móa, en það fór maður að því og hélt því rólegu þar sem það var.“
Pétur segir það svo hafa verið töluverðan hausverk að koma dýrunum upp í annan flutningabíl. „Svín láta ekkert sérstaklega vel að stjórn. Þannig það var svolítil vinna að reka þau. Það var þó reynt að gera það eins rólega og hægt var.“
Ekki er enn vitað um töldrög slyssins en lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn þess.