Öllum boðið í Eldborg

Bergþór Pálsson heldur upp á afmælið sitt í Eldborg.
Bergþór Pálsson heldur upp á afmælið sitt í Eldborg. Kristinn Magnússon

„Þegar ég varð fimm­tug­ur var veisl­an í Saln­um í Kópa­vogi, en skemmti­atriðin fólust í því að ýms­ir söngvin­ir mín­ir komu og tóku með mér dú­etta. Marg­ir höfðu á orði að þetta þyrfti að end­ur­taka á op­in­ber­um vett­vangi. Þá strax ákvað ég að biðja vini mína að gera þetta aft­ur með mér á sex­tugsaf­mæl­inu og bjóða öll­um vin­um mín­um í veisl­una, líka þeim sem ég þekkti ekki vel,“ seg­ir Bergþór Páls­son söngv­ari sem verður sex­tug­ur 22. októ­ber næst­kom­andi. 

Það er al­veg í hans anda hvernig hann ætl­ar að halda upp á sex­tugsaf­mælið sitt; hann býður á tón­leika í Hörpu, sjálfri Eld­borg en hann seg­ist þannig vilja þakka þjóðinni fyr­ir síðastliðin þrjá­tíu ár. „Ég hefði gjarn­an viljað vera í Eg­ils­höll, en svo fannst mér meira við hæfi að vera í Eld­borg. Fjörið verður sunnu­dag­inn 22. októ­ber, kl. 16, á af­mæl­is­deg­in­um en miðarn­ir hurfu á nokkr­um mín­út­um. Það væri kannski ágætt að biðja þá sem náðu í miða að láta vita í miðasölu Hörpu ef eitt­hvað kem­ur upp á sem veld­ur því að þeir geti ekki notað miðana. Það væri leitt ef ein­hver sæti væru auð, fyrst svo marg­ir vildu koma,“ seg­ir Bergþór en í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins sem birt­ist um helg­ina fer Bergþór yfir líf og störf.

Und­ir­rituð var 13 ára þegar hún heyrði Bergþór Páls­son fyrst syngja og það er satt best að segja mjög eft­ir­minni­legt. Bergþór kom í skól­ann til að kynna Moz­art fyr­ir gagn­fræðaskóla­nem­um og all­ur gang­ur get­ur verið á því hvort slík­ar kynn­ing­ar halda nem­end­um og falla í kramið. Það sem gerðist var að Bergþór fékk ung­linga­deild eins stærsta grunn­skóla Reykja­vík­ur alla með sér; hálf­vaknaðir ung­ling­ar töluðu eft­ir á um ótrú­lega skemmti­lega söngv­ar­ann með út­geisl­un­ina. Þetta var ný­lega eft­ir að Bergþór kom heim eft­ir að hafa sungið í Þýskalandi í um þrjú ár. Síðan eru liðin 27 ár en Bergþór varð á þess­um tíma fljót­lega þjóðþekkt and­lit og hef­ur alla tíð vakið at­hygli fyr­ir söng sinn en ekki síður hvernig hann fær fólk með sér og nær til áhorf­enda. 

Bergþór Pálsson.
Bergþór Páls­son. Krist­inn Magnús­son


Það er þriðju­dag­ur, pása á milli kennslu og æf­inga á Toscu, sem frum­sýnd er í Íslensku óper­unni dag­inn fyr­ir stóraf­mælið, en þar fer Bergþór með hlut­verk Sa­grestanos. Nú býður Bergþór upp á kaffi og sæta­brauð í stof­unni sinni í Skugga­hverf­inu, sem sök­um flygils, kon­ung­legra rauðra glugga­tjalda, krist­als og mál­verka minn­ir á sal­arkynni í lít­illi höll. Þessi blett­ur þarna á Lind­ar­götu er líka svo­lítið „er­lend­is“, hinum meg­in við húsið er til dæm­is danska sendi­ráðið og talið berst að því að Bergþór syng­ur alltaf í jóla­messu fyr­ir Dani bú­setta hér­lend­is í Dóm­kirkj­unni og syng­ur þar jóla­sálm­ana, að sjálf­sögðu á dönsku.
„Þetta er svo erfitt tungu­mál, maður veit aldrei hvort maður á að segja a, e eða ö. Ég syng þarna sálm sem er reynd­ar skírn­ar­lag á Íslandi, Ó blíði Jesú blessa þú, en þeir eru með það sem jóla­sálm. Þar er sungið um Jesú sem fór ým­ist í kofa og hall­ir því hann fór nátt­úrlega ekki í mann­greinarálit. Og ég syng þarna um Jesú sem til „lave hytter steg“ og ber fram sem „stæj“. Eitt skiptið komu tvær gaml­ar kon­ur til mín á eft­ir og sögðu: Bergþór minn, þetta var mjög fal­legt hjá þér. En sko, Jesús, hann er ekki steik!“ Núna syng ég þetta alltaf rétt; sti, og sé þær tvær þá niðri líta upp og senda mér þumal­inn upp, ánægðar með mig.“
Bergþór og Al­bert Ei­ríks­son hafa verið sam­an frá 1989 en nú er Al­bert í London á ensku­nám­skeiði sér til gam­ans. Bergþór seg­ir að þetta sé sniðugt og vel skipu­lagt hjá Al­berti að velja akkúrat þenn­an tíma; síðustu tvær vik­urn­ar fyr­ir frum­sýn­ingu séu hálf­brjálaðar og Al­bert geti því haft það náðugt meðan Bergþór er á þönum. Raun­ar er húsið á Lind­ar­götu svo­lítið fjöl­skyldu­hús; á efri hæðinni býr Bragi son­ur Bergþórs með fjöl­skyldu sinni og þar eru tvö barna­börn, tíu og sex ára. Sam­gang­ur­inn er mik­ill og börn­in koma niður og kalla „afi og afi“.

Kynnt­ust á Hverf­is­göt­unni 

Þið Al­bert virðist vera mjög sam­rýnd­ir, gleði í kring­um ykk­ur og fólk sæk­ir í fé­lags­skap ykk­ar. Sum­ir vildu ykk­ur hér um árið jafn­vel á Bessastaði. Hvert er límið í sam­band­inu og hvernig kynnt­ust þið?
„Þegar ég tala mikið seg­ir Al­bert stund­um í gríni að ég sé kon­an í sam­band­inu, en þegar við erum að ferðbú­ast og ég bíð eft­ir hon­um segi ég að hann sé kon­an í sam­band­inu. Þetta er auðvitað tómt bull, enda erum við bara tveir gaur­ar, að mörgu leyti lík­ir en samt ólík­ir. Hann hef­ur gott nef fyr­ir því að lifa líf­inu lif­andi og ég held að ég fylgi meira í kjöl­farið í uppá­tækj­um hans. Við kynnt­umst á Hverf­is­göt­unni, þar sem ég var að bíða eft­ir því að kom­ast yfir göt­una. Það er gott dæmi um hvað hann er laus við að vera ófram­fær­inn, að hann sagði ein­fald­lega: „Nei sko, er þetta ekki Bergþór Páls­son? Mig hef­ur alltaf langað til að kynn­ast þér.“ Ég held að ég hafi vitað sam­stund­is að þarna var kom­inn maður sem mig langaði að deila líf­inu með. Að minnsta kosti hef ég setið uppi með hann!
Al­bert hef­ur sér­stakt lag á því að gera lífið skemmti­legt og lifa því lif­andi, elsk­ar að tala við fólk og skemmta því. Þrátt fyr­ir að vinda sér svona að mér hafði Al­bert ekki einu sinni farið á tón­leika með mér. Þannig að það hófst mik­il upp­fræðsla í klass­ísku tón­list­inni. Ég fór með hann á nú­tíma­tón­leika, sem voru reynd­ar þrír tím­ar, fljót­lega eft­ir að við kynnt­umst. Eins og geng­ur á nú­tíma­tón­leik­um voru tón­ar á stangli úti um allt, uppi og niðri til skipt­is, og Al­bert skrifaði á pró­grammið: „Bergþór, þetta eru leiðin­leg­ustu tón­leik­ar sem ég hef farið á.“ Hann sagðist ætla að vera heima að hlusta á ABBA næst þegar ég færi á nú­tíma­tón­leika. 
Það er tals­vert meiri fart á Al­berti en mér; ef hann sér ein­hverja eyðu í dag­bók­inni til­kynn­ir hann mér að þarna sé til­valið að fá þenn­an eða hinn í kaffi. Ég segi bara jájá. Sam­eig­in­legi grund­völl­ur­inn er hvað okk­ur finnst gam­an að fá fólk í veisl­ur, und­ir­búa viðburði, búa til mat og stemn­ingu.“

Bergþór Pálsson.
Bergþór Páls­son. Krist­inn Magnús­son


Hvernig um­hverfi ólstu upp í? Hvað hafði mót­andi áhrif á þig í æsku?
„Ég var svo hepp­inn að búa við mikið ást­ríki og um­hyggju í upp­vexti, ekki bara af því að ég átti bestu mömmu og pabba í heimi held­ur tengd­ist ég líka ömmu minni sterkt og mín­ar bestu stund­ir voru að stússa í eld­hús­inu hjá henni, búa til kakó, kveikja á kerti og spjalla svo um lands­ins gagn og nauðsynj­ar. Oft finnst mér ég heyra hana hvísla að mér: Hóf er best í öllu, vin­ur minn. Það hafði mik­il áhrif á mig að hún um­gekkst mig eins og full­orðna mann­eskju í sam­tali. Seinna hafði ég mjög gam­an af að keyra hana í efna­búðir og fylgj­ast með því hvernig hún hand­lék efn­in af til­finn­ingu.“
Hljóm­ar eins og hjá blóma í eggi!
„Ég bjó við mikið ör­yggi og það voru sér­stök for­rétt­indi. Ég var yngst­ur þar að auki. Mamma sagði alltaf: „Það er al­veg næg­ur tími til að kynn­ast því hvað ver­öld­in get­ur verið vond.“ Það er að mörgu leyti já­kvætt; að kynn­ast því þegar maður er kom­inn með nægi­leg­an þroska til þess.“
Bergþór ólst upp í Hlíðunum en for­eldr­ar hans eru Páll Bergþórs­son fyrr­ver­andi veður­stofu­stjóri og Hulda Bald­urs­dótt­ir, lækna­rit­ari og veður­stofu­rit­ari. Páll er nú 94 ára en Hulda lést fyr­ir fjór­um árum.
Var aldrei spurn­ing að feta í fót­spor­in og verða veður­fræðing­ur?
„Ég var mikið með pabba og fór með hon­um í vinn­una, fékk að teikna þrýstilín­ur og svona og ósjald­an heyrðist: „Verður hann ekki veður­fræðing­ur þessi?“ Mér fannst pabbi hins veg­ar verða svo oft fyr­ir óvæg­inni gagn­rýni að ég lagði ekki í það að verða veður­fræðing­ur. „Þeir spá alltaf vit­laust þess­ir veður­fræðing­ar,“ var viðkvæðið og fáir gerðu sér grein fyr­ir hvað þetta voru stór spásvæði og erfiðara í þá daga að vinna með spárn­ar. En ég hafði áhuga á nátt­úr­unni, keypti mér bók um ís­lensk­ar lækn­inga- og drykkjar­jurtir og lá í Elliðaár­daln­um og rann­sakaði.“

Tók ekki eft­ir því sem lá fyr­ir

Kom þá fljótt í ljós að tón­list­in var þín hilla?
„Það lá al­veg ljóst fyr­ir þótt ég tæki ekki eft­ir því. Ég leit á þetta sem tóm­stundagam­an og hélt því að það gæti varla verið framtíðarstarf. Ég held því að ungt fólk ætti ein­mitt að taka eft­ir því hvað það sæk­ir í, hvað því finnst gam­an. Það sem brenn­ur á manni er yf­ir­leitt rétta hill­an og oft miklu aug­ljós­ara en við ger­um okk­ur grein fyr­ir. En talandi um áhrifa­valda og það sem mót­ar mann þá hef­ur allt sam­ferðafólk vissu­lega haft áhrif á mig, mis­mik­il. Í tón­list­inni held ég að mitt fyrsta átrúnaðargoð hafi verið pí­anó­leik­ar­inn Svjatoslav Richter. Þegar ég komst í kynni við Vald ör­lag­anna með Renötu Tebaldi og Franco Cor­elli vissi ég að þetta var heim­ur sem átti hug minn all­an. Hall­dór Han­sen, barna­lækn­ir og mann­vin­ur, lét sér annt um unga söngv­ara og hann var mik­ill áhrifa­vald­ur, enda var hægt að drekkja sér hjá hon­um í 10.000 platna safni. Þar átti ég marg­ar tón­list­ar­stund­ir og svo var alltaf kaffi með rjóma og dönsk formkaka úr Víði.
Svo fór ég í tíma til Sig­ur­sveins D. Krist­ins­son­ar sem stofnaði tón­skól­ann sinn og hann hafði líka mjög mik­il áhrif á mig. Þar var ég í tím­um þar sem tón­fræði, hljóm­fræði, tón­heyrn, hljóm­borðsleik­ur og lest­ur af blaði var sett sam­an í einn tíma. Við út­sett­um og sung­um í rödd­um og þetta hafði þau áhrif á mig að mér fór að finn­ast svo auðvelt að setja tón­list­ina í sam­hengi, hvernig hún er búin til, og það efldi mjög áhuga minn. Ég sett­ist alltaf strax við pí­anóið þegar ég kom heim úr tím­un­um og var byrjaður að syngja í rödd­um eitt­hvað, upp úr fjár­lög­un­um eða hvað sem var, og svo söng ég dú­etta með sjálf­um mér, spilaði á fiðluna eina rödd og söng hina.“ 

Hef­urðu al­mennt gam­an af því að hafa áhrif á fólk og hugs­arðu mikið um það í vinnu þinni?
„Það er svo merki­legt að í mér búa tveir per­sónu­leik­ar. Í mér bær­ist íhug­ull, feim­inn, var­fær­inn hæg­læt­ismaður – stund­um ótt­ast ég sviðið skelfi­lega, þó að sá ótti hafi vissu­lega þynnst út með reynslu – og hins veg­ar svo­kallað sviðsdýr og það kem­ur reynd­ar fyr­ir að dramað brýst út í einka­líf­inu. En þegar ég er kom­inn upp á svið er eins og lifni við ein­hver per­sóna sem þykir óum­ræðilega vænt um fólkið í saln­um. Mig grun­ar að það sé lyk­ill­inn í þessu öllu sam­an. Það skipt­ir ekki máli hvort um er að ræða grín eða hlut­verk ill­menn­is; þessi inn­sýn í marg­slungn­ar víðátt­ur mann­legs eðlis, sem ég fæ að deila, er mér inn­blást­ur og verk­ar á mig eins og orku­hringrás. Eft­ir því sem lifi mig bet­ur inn í verk­efnið eykst mér þrótt­ur. Kannski er ég næm­ur á fólk, en mér finnst þessi þrótt­ur alltaf koma frá áhorf­end­um.“

Viðtalið birt­ist í heild í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins. 



Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert