Þúsund íbúðir auk hótela og mikillar kvikmyndastarfsemi mun rísa í Gufunesi á næstu árum. Borgin vinnur nú hörðum höndum að deiliskipulagi fyrir 350-450 fyrstu íbúðirnar. Þetta er á meðal þess sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri greindi frá í kynningu á byggingaráformum borgarinnar í ráðhúsinu í morgun. Verið er að hrinda í framkvæmd fyrsta áfanga verðlaunatillögu arkitektastofunnar jvantspijker + Felixx, sem kynnt var í desember í fyrra.
Verðlaunatillagan ber heitið Fríríki frumkvöðla.
Frétt mbl.is: Fljótandi sundlaug og næturklúbb í Gufunesið
Í hverfinu verður lögð áhersla á ódýarar og öðruvísi lausnir í húsnæðismálum, með áherslu á fyrstu íbúðakaupendur. Í Gufunesi verður „suðupottur skapandi greina“ en þar verður einnig að finna ylströnd, ef áætlanir ganga eftir, og bátastrætó.
Dagur flutti erindi í morgun á málþingi um uppbyggingu íbúðarhúsæðis í Reykjavík. Gufunesið var á meðal þeirra fjölmörgu svæða sem borgarstjóri fjallaði um, en fram kom í máli hans að í Reykjavík væru rúmlega þrjú þúsund íbúðir í byggingu auk þess sem í samþykktum deiliskipulagsáætlunum væri heimild fyrir á fimmta þúsund íbúðir. Samtals áformi borgin að láta byggja rúmlega 19 þúsund íbúðir á komandi árum.
Í Gufunesi verður eins konar miðstöð kvikmyndaiðnaðar í Reykjavík. Dagur greindi frá því að fyrirtæki Baltasar Kormáks væri búið að tryggja sér stóra skemmu sem nú er á svæðinu en svæðið mun að flestu öðru leyti gjörbreytast frá því sem nú er. Dagur greindi frá því að taka ætti upp Ófærð 2 í gömlu áburðaverksmiðjunni seinni á þessu ári. Tækjaleigurnar Kukl og Exton munu hafa starfsemi á svæðinu til frambúðar, en á svæðinu verður einnig til húsa Félag kvikmyndagerðarmanna.
Hollensk stofa vann hugmyndasamkeppni um Gufunesið, sem efnt var til í fyrra. Heildarskipulag svæðisins má sjá á meðfylgjandi myndum. Dagur segir að þegar sé verið að vinna að deiliskipulagi fyrir 350-450 íbúðir á svæðinu en þær verði alls um 1.000 talsins. „Þetta verða óvenjulegar íbúðir, tilraunakenndar og spennandi,“ sagði Dagur um þau áform sem uppi eru um að leita til byggingaraðila sem vilja fara nýjar leiðir í byggingu íbúðarhúsnæðis.
„Við samþykktum í borgarráði í gær að auglýsa sérstaklega eftir hugmyndum frá uppbyggingaraðilum sem eru að gera eitthvað nýtt; eru að hugsa um lausir fyrir fyrstu kaupendur og þá sem minna fé hafa á milli handanna.“ Hann segir að til standi að taka þrjú byggingarsvæði innan borgarinnar undir tilraunastarfsemi af þessum toga en auk Gufunessins séu það Ártúnshöfði og Skerjafjörður. „Við erum til í að taka smá áhættu með þeim [sem vilja byggja á annan hátt, innsk.blm] og prófa eitthvað sem við höfum ekki prófað áður. Þessi svæði gætu verið kjörin til þess.“
Hann segir að auk íbúðanna þúsund verði hótel í hverfinu. Við hverfið verður einnig gert ráð fyrir sjávarsundlaug. „Við erum að skoða það með Orkuveitunni, og ég er ekki að grínast, að nota affallsvatn á tveimur nýjum stöðum,“ sagði Dagur í kynningu sinni. Annars vegar væri um að ræða ylströnd við Skarfaklett, þar sem skemmtiferðaskipin koma til hafnar, en einnig við Gufunes. „Hér gætu verið sjóböð við Gufunesið og að sjálfsgögðu bátastrætó,“ sagði Dagur.
Hann segir að hugmyndin með slíkum ferðamáta sé að tengja betur saman Gufunesið, Bryggjuhverfið, jafnvel Viðey og Hörpusvæðið. Með því gætu borgarbúar kynnst borginni betur frá sjó og öðlast nýja sýn á Reykjavík.
Á fundi borgarráðs í gær kynnti Dagur drög að erindisbréfi starfshóps um ódýrari íbúðir, ungt fólk og fyrstu kaupendur. Í því stendur að hlutverk hópsins sé þrennskonar. Í fyrsta lagi muni hann vinna að uppbyggingu á lóðum sem ríkið lætur af hendi og miði sérstaklega að þörfum ungs fólk. Í öðru lagi verði áhersla á ódýrt húsnæði, ungt fólk og fyrstu kaupendur á Ártúnshöfða og í Skerjafirði. Og í þriðja lagi verði áhersla á smáhýsi og tilraunahverfi í Gufunesi. Þrír fulltrúar á vegum borgarinnar skipa starfshópinn.