Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir útlit fyrir „mun meiri“ afgang af ríkissjóði í ár en áætlað var í fjárlögum 2017. Efnahagslífið sé í blóma.
Afgangurinn í ár var áætlaður 24,7 milljarðar króna og segir Haraldur það munu skýrast á næstunni hver niðurstaðan verður. Fjallað er um skatttekjur ríkissjóðs í Morgunblaðinu í dag.
Þar kemur fram að spáð er tuga milljarða vexti í skatttekjum milli ára. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu 2018 verða heildartekjurnar um 833,5 milljarðar. Haraldur bendir á að arður af fjármálafyrirtækjum kunni að vera þar mjög vanmetinn.