Aðeins um 42% leigjenda nýta sér rétt sinn til húsnæðisbóta og er útlit fyrir að um áramótin hafi 1.100 milljónir króna, sem ráðstafað hafði verið í húsnæðisbætur á fjárlögum ársins, ekki verið nýttar.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íbúðalánasjóði en ný könnun sjóðsins sýnir að umtalsvert fleiri eiga rétt á bótum en nýta sér þær.
Á tímabilinu frá janúar til september í ár voru 4 milljarðar greiddir í húsnæðisbætur og miðað við óbreytt umsóknarhlutfall þá verða greiddir út 5,3 milljarðar í slíkar bætur á árinu öllu. Á fjárlögum ríkisins í ár var gert ráð fyrir 6,4 milljörðum í húsnæðisbætur. Það eru því 1,1 milljarður, sem gert hafði verið ráð fyrir að rynni til að fólks á leigumarkaði, sem verður eftir í ríkiskassanum í lok árs.
Í leigumarkaðskönnun hagdeildar Íbúðalánasjóðs, sem gerð var í ágúst og september, kemur í ljós að húsnæðisbætur eru að meðaltali 31% af leiguverði og því ljóst að um nokkra búbót gæti verið að ræða fyrir marga einstaklinga og fjölskyldur á leigumarkaði. Að meðaltali greiða leigjendur um 41% tekna sinna í húsaleigu og sumir mun meira. Ítarlegar niðurstöður úr könnuninni verða kynntar á húsnæðisþingi sem fram fer á morgun, mánudag.
Þá var í gær tilkynnt að útgreiðsla húsnæðisbóta muni færast til Íbúðalánasjóðs frá Vinnumálastofnun og mun sjóðurinn í kjölfarið ráðast í sérstakt átak til að fræða leigjendur og leigusala um húsnæðisbætur og þannig reyna að auka útgreiðslur til fólks á leigumarkaði. Vegna þessarar tilfærslu munu nokkrir starfsmenn Vinnumálastofnunar flytjast til Íbúðalánasjóðs að því er kemur fram í tilkynningunni.