„Einfaldlega af því að það er engin glóra í þessu“

„Ég er miklu hræddari um að það flytji fleiri úr …
„Ég er miklu hræddari um að það flytji fleiri úr þessu samfélagi vegna virkjunarinnar heldur en til þess,“ segir Valgeir Benediktsson. „Við þurfum á fleira fólki að halda. Þessari virkjun fylgir ekki fleira fólk.“ mbl.is/Golli

„Ég er algjörlega mótfallinn þessari virkjanahugmynd. Og verð sífellt ákveðnari í því að þetta sé ekki farsæl lausn fyrir þetta samfélag og ekki fjórðunginn heldur.“

Þetta segir Valgeir Benediktsson, sem býr að bænum Árnesi II í Árneshreppi á Ströndum. Þarna er hann að tala um Hvalárvirkjun sem fyrirtækið Vesturverk á Ísafirði áformar að reisa í Ófeigsfirði. Valgeir er alinn upp í hreppnum. Hann fór suður, eins og hann orðar það, í fjórtán ár, en hefur nú búið í Árneshreppi samfleytt í yfir þrjátíu ár. Valgeir kom á fót byggðasafninu Kört við heimili sitt fyrir nokkrum árum. Safnið er kennt við samnefnt sker í Trékyllisvíkinni. Þannig kallast safnið og skerið á yfir sjóinn.

Ferðamönnum fjölgar í Trékyllisvík og Norðurfirði ár hvert. Þar er nú að finna að sumarlagi vinsælt  kaffihús og gististaði. Ferðalangar skella sér gjarnan í sund í hinni sérstæðu sveitarlaug í Krossnesi og svo líta margir hverjir við hjá Valgeiri í Kört. Safnið geymir merka og langa sögu byggðarlagsins og þar er hægt að kynnast Strandamönnum sem bjuggu í þessari matarkistu við ysta haf í gegnum aldirnar. 

Óttast að fólk flytji í burt

Árneshreppur er fámennasta sveitarfélag landsins og í fyrra fluttust þaðan þrjár fjölskyldur, þeirra á meðal ungir bændur með börn. Slík blóðtaka er erfið fyrir viðkvæmt byggðarlag og ýmis þjónusta, svo sem grunnskóli og verslun, er í uppnámi.

Á sama tíma og þetta er að eiga sér stað hefur umræða um virkjanaáform í hreppnum orðið háværari. „Það má segja að síðasta árið hafi verið farið að ræða hér um Hvalárvirkjun af einhverri alvöru,“ segir Valgeir. „Ég er miklu hræddari um að það flytji fleiri úr þessu samfélagi vegna virkjunarinnar heldur en til þess. Við þurfum á fleira fólki að halda. Þessari virkjun fylgir ekki fleira fólk.“

Rennsli þriggja áa á Ófeigsfjarðarheiði yrði virkjað. (F.v.): Rjúkandi, Hvalá …
Rennsli þriggja áa á Ófeigsfjarðarheiði yrði virkjað. (F.v.): Rjúkandi, Hvalá og Eyvindarfjarðará. mbl.is/Golli

Álit Skipulagsstofnunar á matsskýrslu umhverfisáhrifa virkjunarframkvæmdarinnar var gefið út í apríl. Í kjölfarið komst veruleg hreyfing á umræðuna, ekki aðeins í Árneshreppi heldur víða um land. Í sumar voru svo stofnuð náttúruverndarsamtökin Rjúkandi í hreppnum. Samtökin eru kennd við eina þeirra áa sem til stendur að virkja. Valgeir tók þátt í stofnun þeirra og á sæti í stjórninni.

„Það eru margir að átta sig á því núna að þetta lítur allt öðruvísi út en við héldum,“ segir hann um virkjanaáformin. „Það er auðvelt að afvegaleiða fólk með óljósum loforðum. Fólk kynnir sér ekki skýrslur. Sem er vont þegar stór framkvæmd, sem hefur svona gífurleg umhverfisáhrif, er annars vegar.“

Forsendur að mestu brostnar

Að sögn Valgeirs eru forsendurnar sem nefndar voru áður í tengslum við virkjunina að mestu brostnar. „Það var alltaf talað um að það myndu fylgja þessu bættar vegasamgöngur og rafstrengur úr virkjun og hingað. En það er að koma í ljós að hvorugt er líklega á leiðinni.“

Nú sé talað um línuveg yfir Ófeigsfjarðarheiði og vestur í Ísafjarðardjúp. Slíkt yrði engin samgöngubót fyrir heimamenn, sérstaklega í ljósi þess að vegurinn yrði undir snjó níu mánuði ársins. „Og við erum alveg búin að fá nóg af snjómokstri.“ Enda þykir Valgeiri ólíklegt að snjónum verði nokkurn tímann rutt af þeim fjallavegi.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

En það eru umhverfisáhrif virkjunarinnar sem hvíla helst á Valgeiri. „Ég get ekki sætt mig við þau. Þau  eru svo miklu, miklu meiri en að hægt sé að réttlæta þetta.“

Blekkingarleikur

Margt er enn á huldu um framkvæmdina í heild að mati Valgeirs. Enn sé ekki búið að ákveða hvernig virkjunin verði tengd flutningskerfi raforku. Vesturverk og HS orka hafa sagt að tenging virkjunarinnar  suður til Kollafjarðar stórbæti afhendingaröryggi á Vestfjörðum. „Þetta hefur nú verið afhjúpað sem ein stór blekking,“ segir Valgeir. Landsnet, Rjúkandi, Jarðstrengir og fleiri hafi upplýst að tenging virkjunarinnar til suðurs bæti í engu raforkuöryggi á veitusvæði Mjólkárvirkjunar. Tenging virkjunarinnar til Ísafjarðar væri möguleg með sæstreng frá Nauteyri við Ísafjarðardjúp.“ Sá strengur, ef það er einhver möguleiki á lagningu hans, væri líklega um 15 kílómetrum lengri en strengurinn til Vestmannaeyja, og því væntanlega ekki á dagskrá næstu áratugina.“

Það er því skoðun Valgeirs að hringtengingin sem alltaf hafi verið talað um sé því „blöff frá upphafi. Það er verið að plata Vestfirðinga alla og það sorglega er að Fjórðungssamband Vestfirðinga tekur þátt í þessum blekkingarleik.“

 Valgeir minnir á að það standi ekki til að virkja aðeins eina á, eins og stundum sé talað um, heldur þrjú stór vatnsföll. Hann segir Hvalárvirjkun því rangnefni. Virkja eigi þrjár ár: Hvalá, Rjúkanda og Eyvindarfjarðará með því að stífla vötn og gera þrjú uppistöðulón á Ófeigsfjarðarheiði. Slíkt mun skerða óbyggð víðerni Vestfjarða verulega auk þess sem vatnsmagn í fossum mun minnka, stundum verulega.

Vinnuvegir að vötnum

Nú liggi fyrir hreppsnefnd að afgreiða tillögur um breytingar á aðal- og deiliskipulagi hreppsins þar sem m.a. er gert ráð fyrir 25 kílómetra löngum vinnuvegum um fyrirhugað virkjanasvæði.

 „Þetta er stór framkvæmd,“ segir Valgeir, „og þetta er sú veglagning sem mest andstaða gæti orðið við.“ Vegina eigi að leggja upp á heiðina og að vötnum sem til stendur að stífla. Þeir fari því um óbyggð víðerni í skilgreiningu náttúruverndarlaga. Slíkum svæðum skal ekki raska nema að brýna nauðsyn beri til og að almannahagsmunir séu í húfi. „Þegar þessir vegir eru komnir þá yrði erfitt að bakka út úr þessu. Með þeim myndi skapast þrýstingur á að halda áfram.“

Að mati Valgeirs gætu einhver jákvæð áhrif orðið á þjónustu í hreppnum á framkvæmdatímanum. Hann segir hins vegar alls óvíst hver þau yrðu þar sem stórum vinnubúðum yrði komið upp á virkjanasvæðinu og þar yrði starfrækt mötuneyti. „Þeir þurfa þá varla á versluninni í Norðurfirði að halda.“

Eftir að virkjunin yrði gangsett myndu engin heilsárstörf skapast í hreppnum. „Það er því langsótt að þetta muni skipta hreppinn einhverju verulegu máli til lengri tíma litið.“

Vesturverk sendi hreppsnefnd Árneshrepps í vor hugmyndalista yfir samfélagsverkefni sem fyrirtækið er tilbúið að taka þátt í yrði virkjunin að veruleika. Valgeir segist hafa heyrt um þennan lista en ekki séð hann. „Ef einhver loforðalisti er til, af hverju er hann ekki bara opinber og til umræðu?  Ég myndi fyrir mitt leyti ekki vilja fórna þessari heiði fyrir eina málningarfötu utan á skólann,“ segir Valgeir.

Valgeir kom á fót byggðasafninu Kört við heimili sitt í …
Valgeir kom á fót byggðasafninu Kört við heimili sitt í Árneshreppi fyrir nokkrum árum. Safnið er kennt við samnefnt sker í Trékyllisvík. mbl.is/Golli

Málin lítið rædd

Valgeir á sér skoðanabræður og -systur í sveitinni en aðrir eru hlynntir virkjanaáformunum. Sumir gefa ekki upp afstöðu sína. Hann segir þessi mál þó lítið rædd. „Fólk forðast að tala um þetta en margir hugsa eflaust sitt.“

 Valgeir gagnrýnir að heildarsýn á verkefnið allt vanti. „Það er verið að setja hina og þessa þætti inn á skipulag. Sumt er farið í umhverfismat, annað ekki. Ég nefni sem dæmi áhrif framkvæmdanna á Eyvindarfjörðinn og línulagningar yfir heiðina. Ekkert af þessu liggur enn fyrir.“

Hann segist enn vongóður um að fallið verði frá virkjunaráformunum. „Einfaldlega af því að það er engin glóra í þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka