WOW air hefur aflýst flugi til Cork á Írlandi í fyrramálið en óveðri er spáð á Írlandi á morgun. Allt skólastarf fellur niður á Írlandi á morgun. Ekki er jafn slæmu veðri spáð í Dublin og því verður flogið þangað klukkan 6:15 í fyrramálið.
Veðurstofa Írlands hefur gefið út stormviðvörun fyrir allt landið og er rautt viðbúnaðarstig alls staðar en gert er ráð fyrir því að stormurinn Ohelia nemi land á Bretlandseyjum í fyrramálið. Hæsta viðbúnaðarstig gildir frá því sex í fyrramálið til miðnættis.
Allt skólahald fellur niður og á það við um grunnskóla, menntaskóla og aðrar menntastofnanir. Jafnframt hefur skólum á Norður-Írlandi verið ráðlagt að fella niður skólahald á morgun.
Í frétt Irish Times kemur fram að stormurinn, sem ekki er skilgreindur sem fellibylur lengur, mun fara beint yfir Írland á morgun. Spáð er ofsaveðri og mesta hættan er í suðvestur- og suðurhluta landsins í fyrramálið og í austri síðdegis. Hætta er á flóðum í mikilli úrkomu og ofsaroki. Óttast er að um mannskaðaveður geti verið að ræða.