Var kynferðislega áreitt af leikstjóra

Björk Guðmundsdóttir.
Björk Guðmundsdóttir. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Tónlistarkonan Björk upplýsir á Facebook-síðu sinni í dag að hún hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu leikstjóra þegar hún hafi leikið undir hans stjórn. Tilefni ummælanna er ásakanir fjölmargra leikkvenna í garð bandaríska kvikmyndaframleiðandans Harveys Weinstein að undanförnu um að hann hafi beitt þær kynferðisofbeldi.

Björk segist hafa fundið fyrir innblæstri af þessum sökum til þess að tjá sig um reynslu sína af dönskum leikstjóra og á þar væntanlega við Lars von Trier sem leikstýrði henni í kvikmyndinni Myrkradansaranum sem frumsýnd var árið 2000 og kallaðist á ensku Dancer in the Dark. Sjálf komi hún frá landi þar sem jafnrétti kynjanna sé hvað mest.

Fyrir vikið hafi hún verið í sterkari stöðu en ella þegar hún hafi komið inn í kvikmyndaheiminn sem leikkona. Þar hafi hún upplifað það að það þætti sjálfsagt að leikstjóri snerti og áreitti leikkonur og starfslið hans hafi gert honum það kleift og ýtt undir það. Litið væri á leikkonur sem lægra settar verur sem í lagi væri að áreita.

„Þegar ég hafnaði leikstjóranum ítrekað fór hann í fýlu og refsaði mér og dró upp þá mynd fyrir starfslið sitt að ég væri sú erfiða. Vegna styrks míns, míns góða starfsfólks og vegna þess að ég hafði engu að tapa þar sem ég hafði engan metnað í heimi leiklistarinnar sagði ég skilið við hann og jafnaði mig síðan á nokkrum árum,“ segir Björk ennfremur.

Hins vegar hafi hún áhyggjur af því að aðrar leikkonur sem hafi starfað með sama leikstjóra hafi ekki gert það sama. „Leikstjórinn var fyllilega meðvitaður um þennan leik og ég er viss um kvikmyndin sem hann gerði síðar hafi verið byggð á þessari reynslu hans af mér. Vegna þess að ég var sú fyrsta sem bauð honum birginn og lét hann ekki komast upp með þetta.“

Björk segist telja að leikstjórinn, sem hún nefnir sjálf aldrei á nafn, hafi í kjölfarið átt betra ig innihaldsfyllra samband við leikkonur sem hann hafi starfað með eftir að hún hafi staðið uppi í hárinu á honum. Fyrir vikið sé von til staðar. Segist hún að lokum vona að yfirlýsing hennar styðji leikkonur og leikara um allan heim og segir svo: „Stöðvum þetta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka