Brasilískur karlmaður sem handtekinn var við komu til landsins á Keflavíkurflugvelli í mars, þegar tollverðir lögðu hald á kókaín í fljótandi formi sem maðurinn var með í ferðatösku sinni, hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til loka janúar.
Hæstiréttur staðfesti gæsluvarðhaldið yfir manninum á föstudaginn, en hann var handtekinn 22. Mars við komuna hingað til lands grunaður um stórfellt fíkniefnalagabrot.Ákæra á hendur manninum var gefin út um miðjan júní, en samkvæmt henni er maðurinn grunaður um að hafa staðið að innflutningi á 1.950 ml af kókaíni sem var með 69% styrkleika.
Fjallað var um málið eftir að það komst upp, enda var þetta í fyrsta skiptið sem tollgæslan hafði afskipti af innflutningi á kókaíni í fljótandi formi.
Maðurinn var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi í júlí, en hann hefur áfrýjað dóminum til Hæstaréttar. Í úrskurði héraðsdóms varðandi áframhaldandi varðhald yfir manninum segir að hann sé erlendur ríkisborgari með engin tengsl við Ísland svo vitað sé. Því sé fallist á þau rök að ætla megi að hann muni reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti undan frekari meðferð málsins fari hann frjáls ferða sinna. Hæstiréttur staðfesti þennan úrskurð héraðsdóms.