Fleiri vilja halda í krónuna

mbl.is/Heiðar Kristjáns­son

Fleiri landsmenn eru andvígir því að evran verði tekin upp sem gjaldmiðill á Íslandi í stað krónunnar en eru hlynntir því samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem gerð var af Gallup fyrir samtökin Já Ísland sem hlynnt eru inngöngu í Evrópusambandið.

Þannig eru 43,3% andvíg því að taka upp evruna sem gjaldmiðil hér á landi en 39,4% eru því hlynnt. Sé aðeins miðað við þá sem eru hlynntir eða andvígir upptöku evrunnar eru 52,3% andvíg því að taka upp evruna en 47,3% því hlynnt.

Frétt mbl.is: Vilja ekki aðildarviðræður við ESB

Stuðningur er mestur á meðal þeirra sem eru með eina milljón eða meira í mánaðarlaun, íbúa Reykjavíkur, háskólamenntaðra, þeirra sem eru 18-24 ára og kjósenda Samfylkingarinnar og Pírata.

Mest andstaða við upptöku evrunnar er á meðal þeirra sem eru með mánaðarlaun á bilinu 400-549 þúsund krónur, hafa grunnskólapróf, kvenna, þeirra sem eru eldri en 55 ára og kjósenda Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Flokks fólksins.

Frétt mbl.is: Mikill meirihluti vill ekki í ESB

Spurt var í sömu skoðanakönnun um afstöðu til annars vegar inngöngu í Evrópusambandið og aðildarviðræðna við sambandið. Fleiri voru bæði andvígir því að ganga í Evrópusambandið og að taka upp aðildarviðræður við sambandið.

Skoðanakönnunin var gerð dagana 11.-24. september. Úrtakið var 1.435 manns á öllu landinu. Fjöldi svarenda var 854 og svarhlutfall 59,5%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert