Mikill meirihluti landsmanna er andvígur því að Ísland gangi í Evrópusambandið samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem Gallup gerði fyrir samtökin Já Ísland sem hlynnt eru inngöngu í sambandið. Samtals eru 59,8% andvíg inngöngu í Evrópusambandið og 40,2% henni hlynnt. Meirihluti hefur verið andvígur inngöngu í sambandið í öllum könnunum sem gerðar hafa verið frá því sumarið 2009 eða undanfarin átta ár.
Ef horft er til þeirra sem vilja ekki ganga í Evrópusambandið segist meirihluti þeirra vera „örugglega“ á móti inngöngu eða 41,1% en 18,7% „sennilega“ andvíg henni. Af þeim sem eru hlynnt því að ganga í sambandið segjast 15,6% örugglega hlynnt inngöngu en 24,6% hins vegar sennilega á móti inngöngu.
Frétt mbl.is: Fleiri á móti inngöngu í átta ár
Ef aðeins er miðað við þá sem segjast vera annað hvort örugglega með eða örugglega á móti inngöngu í Evrópusambandið eru 72% andvíg inngöngu en 28% henni hlynnt. Stuðningur við inngöngu hefur aukist nokkuð frá því að Gallup kannaði afstöðu fólks síðast í febrúar en þá voru 66,1% andvíg inngöngu en 33,9% henni hlynnt.
Meirihlutinn er andvígur inngöngu í Evrópusambandið óháð kyni, aldri, búsetu, menntun og tekjum ef undan er skilinn aldurshópurinn 18-24 ára þar sem 55% eru hlynnt inngöngu í sambandið en 45% andvíg, Reykjavíkingar þar sem fólk skiptist í tvær jafnar fylkingar og þeir sem eru með háskólapróf þar sem 53% eru hlynnt inngöngu en 47% andvíg.
Meirihluti kjósenda Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs er hlynntur inngöngu í Evrópusambandið en meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Flokks fólksins henni andvígur.
Mest andstaða við inngöngu í Evrópusambandið er á meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins eða 90%. Þar af eru 70% örugglega andvíg. 83% kjósenda Framsóknarflokksins eru andvíg inngöngu og 71% kjósenda Flokks fólksins.
Mestur stuðningur við inngöngu í Evrópusambandið er á meðal kjósenda Samfylkingarinnar eða 93%. Næst koma Píratar með 79% og loks VG með 51%. 49% kjósenda VG eru hins vegar andvíg inngöngu í sambandið.
Skoðanakönnunin var gerð dagana 11.-24. september. Úrtakið var 1.435 manns á öllu landinu. Fjöldi svarenda var 854 og svarhlutfall 59,5%.