Þing Landssambands verzlunarmanna, sem fram fór á Akureyri um helgina, vill að stjórnvöld leggi sérstaka áherslu á það í komandi kjaraviðræðum að hækka persónuafslátt. Markmiðið eigi að vera að lágmarkslaun verði orðin skattfrjáls við í lok samningstímans.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá sambandinu. Einnig kemur fram í ályktun um kjaramál að fara eigi blandaða leið þegar kemur að launahækkunum; krónutölu- og prósentuhækkanir.
Þingið leggur til að allir vextir verði lækkaðir og húsnæðisliður tekinn út úr vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Þá er lagt til að lífeyrisgreiðslur atvinnurekenda af launum „haldi áfram eftir 70 ára aldur í stað þess að falla niður.“
Í ályktuninni kemur einnig fram að réttur til að krefjast launa vegna veikinda barna undir 13 ára verði endurskilgreindur og að hann gildi til 18 ára aldurs. Rétturinn geti einnig átt við um veikindi foreldra og maka launþega.
Einnig er lagt til að vinnuvikan verði stytt í áföngum „til aukningar lífsgæða og fjölskyldna þeirra“.
Í ályktun þingsins um húsnæðismál kemur fram að staðan á húsnæðismarkaði sé óviðunandi. Byggja þurfi upp fjölbreyttan leigumarkað svo leigjendur geti leigt húsnæði á viðráðanlegu verði og búið við húsnæðisöryggi. Tryggja þurfi réttindi leigjenda með öflugri löggjöf og auknu eftirliti. „Krafist er áframhaldandi uppbyggingar á óhagnaðardrifnum leigufélögum í líkingu við Bjarg íbúðarfélag. Jafna þarf opinberan stuðning leigjenda og þeirra sem eiga eigið húsnæði svo að húsnæðisbætur hækki til jafns við vaxtabætur.“
Þingið krefst þess meðal annars að vextir á húsnæðislánum verði lækkaðir þannig að vaxtastigið verði sambærilegt við það sem er í þeim löndum sem Ísland ber sig saman við.