„Óviðunandi í lýðræðisríki“

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Hanna

Kristján Þór Júlíusson, menntamálaráðherra og æðsti yfirmaður fjölmiðla á Íslandi, segir að fjölmiðlar eigi ekki að þola inngrip af hálfu ríkisvaldsins vegna ritstjórnarstefnu, efnistaka eða heimildarmanna sinna. „Slíkt er að minni hyggju óviðunandi í lýðræðisríki“.

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu setti í gær lögbann á Stundina og Reykjavík Media á umfjöllun um gögn úr Glitni.

Kristján segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi alla tíð staðið vörð um frelsi fólks til athafna og varið tjáningarfrelsi og frelsi fjölmiðla. „Þessari stefnu mun ég fylgja hér eftir sem hingað til.“

Frá þessu greinir Kristján á Facebook. Mbl.is hefur reynt að ná í Kristján í dag og náði sambandi við hann skömmu eftir að færslan á Facebook birtist. Hann hafði engu við stöðuuppfærsluna að bæta. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hefur einnig tjáð sig um lögbannið. Hún segir að frjáls fjölmiðlun sé undirstaða í lýðræðissamfélagi. „Fyrst og fremst þarf að tryggja tjáningarfrelsi og rétt fjölmiðla til að fjalla um mál. Augljóst er að lögbann Glitnis og tímasetning þess hjálpar ekki XD. Það sér hver maður.“


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert