Segja meirihlutann misnota aðstöðu sína

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði fram fyrirspurn um kostnað við …
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði fram fyrirspurn um kostnað við bæklinginn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Minnihlutinn í borgarstjórn gerir athugasemdir við bækling um húsnæðismál sem dreift var inn á öll heimili í Reykjavík í morgun. Vilja fulltrúar minnihlutans meina að meirihlutinn sé að misnota aðstöðu sína í aðdraganda alþingiskosninga til að kynna áherslur sínar í húsnæðismálum.

Um er að ræða 40 síðna bækling, unnin fyrir Reykjavíkurborg, þar sem gerð er grein fyrir ýmsum þáttum sem snúa að húsnæðismálum borgarbúa og framtíðarsýn hvað þau varðar. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði fram fyrirspurn á borgarstjórnarfundi í dag um málið þar sem óskað var eftir sundurliðuðum upplýsingum um kostnað við bæklinginn, sem hann kallar „kosningabækling“.

„Hluti af kosningabaráttu Samfylkingarinnar“

Í fyrirspurn hans segir meðal annars: „Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við þessi vinnubrögð enda er með öllu ótækt að borgarstjóri noti almannafé í pólitískum tilgangi með slíkum hætti.“ Þá hefur Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, einnig tjáð sig um málið á Facebook. „Það er algjörlega óviðunandi að meirihlutinn í borginni, þ.e. Samfylkingin, Vinstri græn, Píratar og Björt framtíð, sem skapað hefur mikinn húsnæðisvanda í borginni misnoti aðstöðu sína korter fyrir kosningar og dreifir auglýsingabæklingi um glærusýningar borgarstjóra.“

Blaðamaður náði tali af Kjartani þegar hann var rétt stigin úr pontu á borgarstjórnarfundi fyrr í dag, þar sem rætt var um húsnæðismál í borginni.

„Það sjá allir hvað er að gerast. Það eru ellefu dagar til kosninga. Maður getur ímyndað sér hvað yrði sagt ef Sjálfstæðisflokkurinn myndi senda einhvern bækling inn á öll heimili. Þrátt fyrir að það standi ekki XS á þessu eða séu ekki áberandi myndir af borgarstjóra eða eitthvað slíkt, þá átta sig allir á að þarna er meirihlutinn fyrst og fremst að koma að sínum verkum og húsnæðismálin eru mjög stór fyrir alþingiskosningar. Þetta er bara hluti af kosningabaráttu Samfylkingarinnar, fyrst og fremst, og kannski hinna flokkanna sem í henni standa,“ segir Kjartan.

Ámælisvert rétt fyrir kosningar

Hann bendir að leiðari sé fremst í bæklingunum þar sem komi fram ýmsar upplýsingar sem megi deila um. Þá beri bæklingurinn þess merki að vera unninn í flýti.

Hann segir engan í minnihlutanum hafa vitað að því að til stæði að gefa út umræddan bækling, hvað þá að vinna stæði yfir við hann. „Við áttuðum okkur bara á þessu þegar við fengum þetta inn um lúguna. Það hafði ekkert verið talað um þetta við okkur áður.“

Kjartan gerir ráð fyrir því að einhvern tíma taki að að fá upplýsingar um kostnaðinn, en Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, svaraði stuttlega fyrir málið á fundi borgarstjórnar í dag. „Borgarstjóri svaraði þessu þannig að hann hafi viljað koma upplýsingum til skila, en það sjá það allir að það getur verið ámælisvert að gera það svona rétt fyrir kosningar, og með þessum hætti. Ekki nema hann ætli að leggja til fjárveitingu til þess að aðrir flokkar fái sambærilega upphæð til að kynna sínar áherslur í þessum  málum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert