Þöggun blaðamanna fer með frelsið

AFP

Son­ur malt­nesku blaðakon­unn­ar Dap­hne Car­u­ana Galizia seg­ir að hún hafi verið ráðin af dög­um vegna skrifa sinna. Hann lýs­ir því á Face­book hvernig hann hafi hlaupið í ör­vænt­ingu í kring­um bíl móður sinn­ar þar sem hann stóð í ljós­um log­um í gær. Hann reyndi að opna hurð bíls­ins en það var orðið of seint.  

Bif­reið Car­una Galizia var sprengd upp skammt frá heim­ili blaðakon­unn­ar á Möltu í gær en hún hef­ur meðal ann­ars unnið ít­ar­leg­ar frétt­ir um spill­ing­ar­mál tengd­um for­sæt­is­ráðherra lands­ins, Joseph Muscat, og nán­um sam­starfs­mönn­um hans og fjöl­skyldu.

Son­ur henn­ar, Matt­hew Car­u­ana Galizia, sem einnig er blaðamaður og kom meðal ann­ars að rann­sókn á Pana­maskjöl­un­um, seg­ir Muscat vera sam­sek­an um morðið á móður hans.

Vara­for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, Frans Timmerm­ans, skrif­ar á Twitter að hann sé bæði reiður og í áfalli. „Ef þaggað er niður í blaðamönn­um glöt­um við frels­inu.“

Talsmaður fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, Marga­rit­is Schinas, seg­ir að rétt­læt­inu verði að full­nægja og rann­saka þurfi hverj­ir hafi staðið á bak við morðið á blaðamanni sem rann­sakaði spill­ingu sem stjórn­mála­menn á Möltu bland­ist inn í. 

Daphne Capuana Galizia.
Dap­hne Capu­ana Galizia. AFP

„Við erum skelf­ingu lost­in vegna þeirr­ar staðreynd­ar að vel þekkt­ur og virt­ur blaðamaður á Möltu, Dap­hne Car­u­ana Galizia, hafi týnt lífi í gær, að því er virðist, skipu­lagðri árás,“ seg­ir  Schinas.

Vin­kon­ur í þrjá ára­tugi

Fjöl­miðlakon­an Linda Blön­dal hef­ur þekkt Dap­hne ára­tug­um sam­an og átt í mikl­um og góðum sam­skipt­um við hana. Dap­hne var meðal ann­ars viðmæl­andi henn­ar í þætti sem Linda vann fyr­ir RÚV um Möltu fyr­ir fimmtán árum síðan.

„Þetta er póli­tískt morð. Henni hafði verið hótað margoft. Dap­hne var ótta­laus, glæsi­leg og ruggaði bát­um svo um munaði með pistl­um sín­um. Oft reynt að hand­taka hana fyr­ir hvað eina. Hetju­kona og alltaf til taks í sam­ræður þegar við hitt­umst. Ég er satt að segja í sjokki og veit ekki hvað skal segja þegar þaggað er niður í konu eins og Dap­hne,“ skrif­ar Linda á Face­book.

Dóra Mizzi, syst­ir Lindu Blön­dal hef­ur búið á Möltu í þrjá ára­tugi og þær Dap­hne hafa verið vin­kon­ur all­an þann tíma. 

Þær voru ná­grann­ar fyrst þegar Dóra flutti til eyj­unn­ar og er mik­il og góð vinátta milli fjöl­skyldu Dóru og Dap­hne allt frá þeim tíma. Dap­hne Car­u­ana Galizia læt­ur eft­ir sig eig­in­mann og þrjá syni.

Dap­hne er dáin. Hún var myrt

Son­ur Dóru heyrði spreng­ing­una síðdeg­is í gær og sá svart­an reyk en gerði sér ekki grein fyr­ir því hvað væri að ger­ast en fjöl­skyld­urn­ar búa skammt frá hvor ann­arri í sama dal. Það var ekki fyrr en eig­inmaður Dóru kom heim úr vinn­unni og sér frétt­ina um sprengju­til­ræðið í tölv­unni að Dóra frétt­ir af því hvað hafi gerst. 

„Dap­hne er dáin. Hún var myrt, sagði hann. Ég fékk svo mikið áfall vegna þess að ég hef þekkt hana allt frá því ég kom hingað til Möltu fyrst,“ seg­ir Dóra í sam­tali við mbl.is.

Hún seg­ir að skrif Dap­hne hafi alla tíð vakið mikla at­hygli enda feykigóður og sterk­ur penni. „Hún gat verið grimm en hún sagði sína skoðun,“ seg­ir Dóra. „Hún fékk fólk til þess að segja frá,“ bæt­ir Dóra við en blogg Dap­hne var gríðarlega vin­sælt og víðlesið.

Við vor­um vin­ir og hún var allt öðru­vísi sem mann­eskja. Þegar hún var í sínu eðli­lega um­hverfi og var ekki að berj­ast gegn öllu því sem hún taldi rangt í land­inu, var hún ofboðslega ró­leg og blíð kona, seg­ir Dóra.

„Hún var svo stór hluti af sam­fé­lag­inu en það voru marg­ir sem hötuðu hana. Því hún réðst kannski gegn þeirra flokki og var mjög hörð í gagn­rýni sinni á Verka­manna­flokk­inn,“ seg­ir Dóra.

Und­an­farið hafði Dap­hne unnið að í mál­um gegn Adri­an Delia, for­manni Þjóðern­is­flokks­ins, en hann hef­ur nú fallið frá öll­um meiðyrðamál­um gegn Dap­hne sem hann höfðaði í ág­úst.

„Hún lét alla heyra það en var alltaf meira á móti Verka­manna­flokkn­um,“ seg­ir Dóra. Það skýrist að sögn Dóru á því að Dap­hne er að al­ast upp þegar Verka­manna­flokk­ur­inn var að missa tök­in í kring­um 1980 og spill­ing­in var alls ráðandi. „Hún treysti þeim aldrei,“ bæt­ir Dóra við.

AFP

Í færslu á Face­book sak­ar Matt­hew Car­u­ana Galizia for­sæts­is­ráðherr­ann um að hafa fyllt ráðuneytið af þrjót­um og skapað menn­ingu skaðleys­is sem hafi breytt Möltu í mafíu­eyju.

Blaðamaður­inn sem stend­ur í fæt­urna er fyrsta skot­markið

„Móðir mín var ráðin af dög­um vegna þess að hún var, líkt og marg­ir sterk­ir blaðamenn, teng­ing­in milli lög­gjaf­ans og þeirra sem reyna að brjóta lög, skrif­ar Matt­hew Car­u­ana Galizia á Face­book. 

„En um leið var hún skot­mark vegna þess að hún var eina mann­eskj­an í þess­ari stöðu. Þetta er það sem ger­ist þegar stofn­an­ir rík­is­ins eru óstarf­hæf­ar: mann­eskj­an sem stend­ur í fæt­urna er blaðamaður. Sem þýðir að hún er sú fyrsta sem deyr.“

Dap­hne Car­u­ana Galizia var 53 ára göm­ul þegar hún lést en hún var rann­sókn­ar­blaðamaður­inn sem leiddi rann­sókn­ina á Pana­maskjöl­un­um á Möltu ásamt syni sín­um. 

Henni hef­ur verið lýst sem „Wiki­leaks-kon­an“ þar sem hún skrifaði fjölda greina þar sem hún bar nána sam­starfs­menn Muscat þung­um sök­um, meðal ann­ars byggða á gögn­um úr Panama skjöl­un­um. 

AFP

Mik­il reiði og sorg rík­ir meðal eyja­skeggja og í gær­kvöldi kveiktu þúsund­ir á kert­um í minn­ingu henn­ar í höfuðborg­inni, Vall­etta, og ná­grenni. Bú­ist er við því að mun fleiri muni taka þátt í minn­ing­ar­at­höfn um helg­ina. Nokk­ur hundruð tóku þátt í mót­mæl­um und­ir kjör­orðinu „Rétt­læti fyr­ir Dap­hne“ fyrr í dag.

Hún er fjórða mann­eskj­an sem deyr í sprengju­til­ræðum á Möltu á rúmu ári en fyrri árás­ir hafa tengdst skipu­lagðri glæp­a­starf­semi.

„Þeir störðu á mig“

„Ég mun aldrei gleyma, að hlaupa í kring­um loga hel­vít­is á vett­vangi, reyna að opna hurðina á sama tíma og gjall bíl­flaut­unn­ar glumdi enn. Öskrandi á tvo lög­reglu­menn sem komu upp með eitt slökkvi­tæki til þess að slökkva,“ skrif­ar Matt­hew Car­u­ana.

„Þeir störðu á mig. Mér þykir það leitt en það er ekk­ert sem við get­um gert,“ sagði ann­ar þeirra. Ég leit niður og þarna voru lík­ams­hlut­ar móður minn­ar allt í kring­um mig. Ég áttaði mig á því að þeir höfðu rétt fyr­ir sér. Þetta var von­laust.“

Á sama tíma lýs­ir Muscat morðinu sem villi­mennsku og heit­ir því að draga ódæðis­menn­ina fyr­ir dóm. En son­ur fórn­ar­lambs­ins gef­ur lítið fyr­ir orð for­sæt­is­ráðherr­ans um heiðarlega rann­sókn, sem hann seg­ir eins og áður sagði sam­sek­an. 

Matthew Caruana Galizia og Caruana Galizia, sonur og eiginmaður Daphne …
Matt­hew Car­u­ana Galizia og Car­u­ana Galizia, son­ur og eig­inmaður Dap­hne Car­u­ana Galizia, ásamt lög­reglu á vett­vangi. AFP

Rann­sókn­ar­dóm­ar­inn, sem átti að stýra rann­sókn­inni, hef­ur þegar stigið til hliðar vegna ásak­ana Car­u­ana Galizia fjöl­skyld­unn­ar um náin tengsl dóm­ar­ans við rík­is­stjórn Verka­manna­flokks­ins. Dóm­ar­inn, Consu­elo Scerri Her­rera, hafði verið sakaður um mis­ferli í starfi af blogg­ar­an­um og hafði hótað henni mál­sókn fyr­ir ærumeiðing­ar.

Aðeins eru fjór­ir mánuðir liðnir síðan flokk­ur Muscat vann stór sig­ur í þing­kosn­ing­um en hann hafði flýtt kosn­ing­um vegna frétta Dap­hne þar sem hún sakaði eig­in­konu Muscat, Michelle, um að hafa þegið fé frá fjöl­skyldu Ilham Aliyev, for­seta Aser­baís­j­an, og falið á leyni­reikn­ing­um í Panama.

Muscat harðneitaði ásök­un­um en fjöl­mörg mál tengd hon­um og nán­ustu sam­starfs­mönn­um hans er að finna í skjöl­un­um sem var lekið frá Mossack Fon­seca lög­manns­stof­unni. Í skjöl­un­um er upp­lýst um hvernig auðugir ein­stak­ling­ar víðsveg­ar um heim­inn, þar á meðal marg­ir stjórn­mála­menn, notuðu skúffu­fyr­ir­tæki í skatta­skjól­um, svo sem Panama, til að fela sjóði sína.

Meðal þeirra sem komst upp um eru tveir nán­ir sam­starfs­menn Muscats. Hann barðist gegn kröfu al­menn­ings um að þeir yrðu rekn­ir frá störf­um og bar fyr­ir sig að um einka­reikn­inga þeirra væri að ræða og þeir hefðu ekki framið lög­brot. 

AFP

Í frétt sjón­varps­stöðvar á Möltu kem­ur fram að Car­u­ana Galizia hafi lagt fram kæru til lög­reglu fyrr í mánuðinum vegna hót­ana sem henni höfðu borist.

„Égt mun ekki una mér hvíld­ar fyrr en rétt­lætið nær fram að ganga,“ sagði Muscat for­sæt­is­ráðherra í gær­kvöldi og bætti við að all­ir viti að Car­u­ana Galizia hafi verið óvæg­in í gagn­rýni sinni gagn­vart hon­um, bæði póli­tískt og per­sónu­lega, en eng­inn geti rétt­læt svo villi­manns­leg­an verknað á nokk­urn hátt,“ bætti hann við. Hann seg­ist hafa óskað eft­ir því við banda­rísku al­rík­is­lög­regl­una, FBI, að hún komi að rann­sókn máls­ins. FBI hef­ur orðið við beiðninni og mun koma til Möltu að rann­saka morðið. Dóra fagn­ar því enda myndi aldrei nokk­ur leggja trúnað á verk yf­ir­valda á Möltu í þessu máli.

Síðasta færsla penn­ans beitta

Í síðustu færsl­unni á bloggi henn­ar, sem var skrifuð inn­an við klukku­stund áður en hún lést, end­ur­tók hún ásak­an­ir sín­ar um að  ráðuneyt­is­stjóri (chi­ef of staff) for­sæt­is­ráðuneyt­is­ins, Keith Schembri, væri bófi sem not­færði sér áhrif sem hann hefði inn­an rík­is­stjórn­ar­inn­ar til þess að auðgast sjálf­ur.

„Það eru bóf­ar hvar sem þú lít­ur. Staðan er von­laus.“ Með þess­um orðum lýk­ur færsl­unni. Þeirri síðustu sem þessi beitti penni læt­ur eft­ir sig.

Muscat, sem er 43 ára gam­all, var áður blaðamaður. Árið 2013 komst hann til valda er flokk­ur hans, Verka­manna­flokk­ur­inn, batt enda á 15 ára stjórn­artíð hægri flokks­ins, Þjóðern­is­flokks­ins. Á fyrsta kjör­tíma­bil­inu náði hann fram ýms­um efna­hags­um­bót­um á Möltu og bætti laga­lega stöðu sam­kyn­hneigðra. Er talið að þetta hafi ýtt und­ir stór­sig­ur hans í júní. Dóra tek­ur und­ir það og seg­ir að at­vinnu­ástandið hafi sjald­an eða aldrei verið jafn gott og nú á Möltu og marg­ir velti ekki fyr­ir sér Panama-skjöl­un­um og telji að þau komi sér ekki við. „Það er vinna og góð laun og fólk hef­ur hvorki áhuga né áhuga á að fjallað sé um þetta. Vildi bara að hún léti þá vera. En hún gat það ekki. Hún var óstöðvandi í sín­um rann­sókn­um,“ seg­ir Dóra. 

Hluti af ásök­un­um í  garð Muscat bein­ast að orðrómi um að auðmenn geti fengið malt­neskt rík­is­fang gegn fjár­fest­ing­um á eyj­unni. Jafn­framt hafa önn­ur ríki Evr­ópu­sam­bands­ins ýjað að því að fjár­mála­kerfi Möltu bjóði upp á skattaund­an­skot. Til að mynda eru þýsk skatta­yf­ir­völd að rann­saka 2 þúsund fyr­ir­tæki sem eru skráð á Möltu en tengj­ast þýsk­um hluta­fé­lög­um.

Á sama tíma og skot­mörk Car­u­ana Galizia hafi aðallega verið fé­lag­ar í Verka­manna­flokkn­um þá hef­ur hún und­an­farið beint sjón­um sín­um að stjórn­ar­and­stöðunni, Þjóðern­is­flokkn­um. Formaður flokks­ins, Adri­an Delia, seg­ir að til­ræðið í gær hafi verið póli­tískt morð og hvatti til þess að sjálf­stæð rann­sókn færi fram.

Delia seg­ir að flokk­ur­inn muni ekki sætta sig við að lög­reglu­stjór­inn, her­for­ing­inn eða rann­sókn­ar­dóm­ar­inn komi að rann­sókn­inni því all­ir þrír hafi verið harðlega gagn­rýnd­ir af Car­u­ana Galizia. 

Car­u­ana Galizia beindi ekki bara sjón­um sín­um að spillt­um stjórn­mála­mönn­um held­ur einnig meintu pen­ingaþvætti bank­anna og tengsla milli veðmálaiðnaðar­ins og mafíunn­ar.

AFP

Evr­ópsk­ir stjórn­mála­menn hafa tjáð sig um morðið á sam­fé­lags­miðlum und­an­farið. Meðal ann­ars þýski stjórn­mála­maður­inn Man­fred We­ber, sem sit­ur á Evr­ópuþing­inu fyr­ir kristi­lega demó­krata. „Svart­ur dag­ur fyr­ir lýðræðið,“ skrif­ar hann á Twitter. 

En Matt­hew Car­u­ana Galizia seg­ir að morðið á móður hans sé ekki venju­legt morð og ekki harm­rænt. „Hörm­ung er þegar ekið er yfir ein­hvern. Þegar blóð og eld­ur um­kringja þig þá er það stríð. Við erum fólk sem á í stríði við ríkið og skipu­lagða glæp­a­starf­semi sem hef­ur orðið óaðskilj­an­leg.“

Hann gagn­rýn­ir „trúðinn sem siti í stól for­sæt­is­ráðherra“, sem gefi yf­ir­lýs­ing­ar til þings­ins um blaðamann sem hann hafi eytt yfir ára­tug í að gagn­rýna og áreita. Matt­hew Car­u­ana Galizia bend­ir meðal ann­ars á færslu aðstoðar­varðstjóra í lög­regl­unni sem ritaði á Face­book skömmu eft­ir morðið: „All­ir fá það sem þeir verðskulda, kúa­mykja! Er ánægður :)“

„Já þetta er það sem við erum; mafíu­ríki þar sem þú ert sprengd­ur í tætl­ur fyr­ir að beita þér fyr­ir grund­vallar­frelsi. Aðeins fyr­ir þá sem áttu að vera að verja þig í stað þess að fagna því.“

„Ég er miður mín yfir þessu enda vin­kona mín og fjöl­skyldu minn­ar,“ seg­ir Dóra sem minn­ist góðrar vin­konu. 

„Ég þekkti hana sem góða þægi­lega konu sem trúði á það sem hún var að gera. Hún gat bara ekki hætt og hef­ur verið lengi hrædd um líf sitt. Sam­viska henn­ar hefði aldrei leyft henni að hætta og hún borgaði fyr­ir það með lífi sínu,“ seg­ir Dóra. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert