Saknað - Íslensk mannshvörf 1930-2018 er vinnuheiti bókar Bjarka H. Hall sem á að koma út á seinni hluta næsta árs. Bjarki hefur unnið að ritun bókarinnar í frístundum sínum.
„Elsta mannshvarfið sem ég ætla að fjalla um, að öllu óbreyttu, varð árið 1930,“ sagði Bjarki. „Mér sýnist að frá 1920 og til dagsins í dag hafi 70-80 manns horfið sporlaust hér á landi. Þessi mannshvörf voru misjafnlega dularfull.“
Í umfjöllun um bókarskrifin í Morgunblaðinu í dag kveðst Bjarki stefna að því að fjalla sérstaklega um 20-30 mál í bókinni, sum í stuttu máli og önnur í lengra máli. Sum mannshvörfin hafa legið þungt á þjóðarsálinni eins og þegar þeir Guðmundur Einarsson og Geirfinnur Einarsson hurfu báðir árið 1974. Tvö önnur dularfull mannshvörf urðu einnig á því sama ári og því stendur árið 1974 upp úr sem það ár þegar flest mannshvörf urðu, á fyrrgreindu tímabili, að sögn Bjarka.