„Fimmtíu milljóna króna viðskipti eru ekkert langt frá einhverju venjulegu fólki,“ sagði Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Hann, ásamt Helgu Völu Helgadóttur, frambjóðanda Samfylkingarinnar, ræddi við þáttastjórnendur, um lögbannið sem Glitnir HoldCo lagði á Stundina í fyrrakvöld.
Brynjar sagði að lögbannið væri gagnslaust og tímasetningin fráleit. „Ég held þetta skaði formanninn og flokkinn,“ sagði hann og Helga Vala tók undir það. Hún velti því svo upp hvort Bjarni gæti haft samband við sýslumann og látið aflétta lögbanninu hvað sig varðar. Brynjar og Helga Vala eru bæði lögfræðingar og töldu að þetta gæti verið fær leið. „Ég geri ráð fyrir því að hver og einn geti aflétt bankaleynd hvað sig varðar,“ sagði Brynjar og bætti við að þetta gæti komið til skoðunar.
Brynjar sagði í þættinum að fréttaflutningur af fjármálum Bjarna – sem vörðuðu 10 til 11 ára gömul viðskipti – væru til þess fallin að andúð á flokknum og formanninum mögnuðust. Fram kom að um helgina hefði Stundin greint frá því að Bjarni hefði losnað undan ábyrgð á 50 milljóna króna kúluláni.
Brynjar sagði þá að 50 milljónir króna væru ekki miklir peningar og að slíkar upphæðir væru „ekkert langt frá venjulegu fólki“. Venjulegt fólk keypti sér stundum íbúðir fyrir fimmtíu milljónir. „Þessar tölur eru ekkert fjarri venjulegu fólki, Helga Vala. Annar hver lífeyrisþegi á kannski 50 milljónir sem menn eru að fjárfesta með. Menn eru að fjárfesta með lífeyrinn sinn – sem er miklu meiri en 50 milljónir hjá venjulegu fólki, Helga Vala,“ sagði Brynjar.
Hún spurði þá hvort sú væri virkilega raunin. Fimmtíu milljónir væru upphæð sem flesta munaði verulega um. „Fólk munar um það ef sjálfskuldarábyrgð upp á 50 milljónir er felld niður,“ sagði hún og vísaði til áðurnefndra frétta.
Brynjar svaraði því til að fólk hefði ólíkan bakgrunn. Bjarni væri dæmi um venjulegan mann sem færi í viðskipti og þaðan inn á þing. Hann hafi svo sagt sig frá öllum viðskiptum þegar hann varð formaður flokksins. „Þetta eru ekkert stórkostlega miklir peningar sem þarna er um að ræða. Menn koma víðsvegar að og staða fólks er mismunandi. Fimmtíu milljónir eru ekkert fjarri einhverjum almenningi. Fullt af fólki á þetta mikla peninga.“