Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur samþykkt lögbannsbeiðni fjölmiðlafyrirtækisins 365 um að Logi Bergmann hefji störf hjá Símanum og Árvakri, útgefanda mbl.is. Þetta staðfestir Logi í samtali við mbl.is, en málið var tekið fyrir í dag og kveðinn upp úrskurður. Fékk hann afhenta stefnu vegna málsins í síðustu viku, en 11. október var tilkynnt um að Logi hefði sagt upp hjá 365 og verið ráðinn til Árvakurs.
Logi segir að niðurstaðan komi sér mikið á óvart. „Ég hef enga trú á að þetta haldi,“ segir hann. Málið snýst um klausu í ráðningasamningi Loga hjá 365 um hvort honum sé heimilt að starfa hjá samkeppnisaðila eftir að hafa látið af störfum hjá 365.
Guðjón Ármannsson, lögmaður Loga, segir að niðurstaðan komi mjög á óvart og þá sérstaklega tímalengd lögbannsins. „Um er að ræða flókin úrlausnarefni á svíði vinnuréttar og dapurlegt að lögbanni sé beitt áður en þau álitaefni fá efnislega umfjöllun fyrir dómstólum. Það er líka einkennilegt að þrátt fyrir hin flóknu úrlausnarefni þá er niðurstaða sýslumanns með öllu órökstudd. Nú fer málið fyrir dómstóla og viðbúið að málsmeðferð þar taki eitt til tvö ár. Á meðan er lögbannið í gildi og það vistarband sem í því felst,“ segir hann.
Segir Guðjón að niðurstaðan komi einnig á óvart í ljósi þess að ljósvakahluti 365 mun 1. desember færast yfir til Vodafone. „Logi hefur aldrei samþykkt að starfsskyldur sínar færist yfir til nýs vinnuveitanda. Þar við bætist að Vodefone átti enga aðild að lögbannsmálinu,“ segir hann.
Logi segir að hann hafi ákveðið að stressa sig ekki á þessu lögfræðimáli og láti lögfræðing sinn sjá um það. Hann hafi hins vegar ákveðið að vera bara léttur í lundu og líta á björtu hliðar tilverunnar.