Tekjuskattur einstaklinga skilaði 160,6 milljörðum króna í fyrra. Það er um 70% meira en árið 2009, þegar skatturinn skilaði 94,7 milljörðum. Tölurnar eru á verðlagi hvors árs.
Þetta kemur fram í greiningu Ríkisskattstjóra fyrir Morgunblaðið. Þar kemur og fram að lægsta þrepið í tekjuskattinum skilaði 150,3 milljörðum í fyrra. Til samanburðar skilaði milliþrepið 5,4 milljörðum og efsta þrepið 4,9 milljörðum. Hlutfall þessara tveggja þrepa var 3,3 og 3% af samanlögðum tekjuskatti í fyrra.
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs hjá Samtökum atvinnulífsins, segir þessar tölur í takt við þá niðurstöðu OECD að óvíða sé tekjujöfnuður meiri en á Íslandi. Það birtist í því að tvö efstu skattþrepin skili ekki meira, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.