Húsfyllir var á íbúafundi í Bæjarbíói í kvöld þar sem umferðaröryggi í og við Reykjanesbrautina var rætt.
Í fréttatilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ segir að fundargestir hafi spurt margs, enda brautin fyrirferðamikið mannvirki sem kljúfi bæjarfélagið þvert og endilangt.
Meðal þeirra sem tóku til máls á fundinum voru Hrafnhildur R. Halldórsdóttir, íbúi í Setbergi, og Sindri Blær Gunnarsson, nemi í Flensborg sem lenti í hörðum árekstri á Reykjanesbraut. Þá var þar líka Lilja Guðríður Karlsdóttir, samgönguverkfræðingur hjá Viaplan, Magnús Einarsson frá Vegagerðinni og Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Í máli Sindra Blæs kom fram að ungt fólk í Hafnarfirði væri hvekkt og forðist að fara um hringtorgin á brautinni.
Að fundi loknum bar Hrafnhildur Halldórsdóttir íbúi upp ályktun fyrir fundargesti sem samþykkt var með dynjandi lófaklappi.
„Íbúafundur um samgöngumál í Hafnarfirði skorar á stjórnvöld að tryggja áframhaldandi úrbætur á Reykjanesbraut í Hafnarfirði. Tryggt verði að framkvæmdir við gatnamótin og hringtorgin á kafla frá Kaplakrika að Lækjargötu hefjist á næsta ári og að jafnframt verði lokið við tvöföldun Reykjanesbrautar frá Kaldársselsvegi að mislægum gatnamótum á Krísuvíkurvegi,“ sagði í ályktuninni.